Fara í efni

Viðbrögð við áhættumati á koffínneyslu ungmenna

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun óskaði eftir að Áhættumatsnefnd atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins framkvæmdi áhættumat á því hvort neysla orkudrykkja sem innihalda koffín hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmenna. Fyrri hluti mats nefndarinnar sem fjallar um neyslu ungmenna í 8.-10. bekk liggur nú fyrir og sýnir að framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja hérlendis leiðir til óhóflegrar neyslu ungmenna sem hefur í för með sér hættu á neikvæðum heilsuáhrifum. Á grundvelli áhættumatsins hyggst Matvælastofnun leggja til breytingar á reglum sem varða koffín í drykkjarvörum og aukna fræðslu með það að markmiði að takmarka aðgengi ungmenna að koffínríkum orkudrykkjum.

Ekki eru almennar takmarkanir á hámarksmagni íblandaðs koffíns í drykkjarvörur á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Samkvæmt Evrópureglum um merkingar er krafist varúðarmerkinga á umbúðum drykkja sem innihalda meira en 150 mg koffín í líter. Nokkur lönd hafa sett efri mörk, þ.á.m. Ísland og Danmörk við 320 mg/l. Sækja þarf um sérstakt leyfi fyrir drykkjarvörur sem innihalda koffín umfram það. Í öllum tilfellum þar sem leyfi hefur verið veitt fyrir drykkjum með koffín umfram 320 mg í líter hefur það verið veitt með skilyrðum um að bannað sé að selja drykkina börnum yngri en 18 ára. Drykkir sem háðir eru sérstöku leyfi eru hins vegar ekki það sem veldur óhóflegri inntöku ungmenna á koffíni skv. niðurstöðum nefndarinnar og nægir því ekki að stöðva þá markaðssetningu eingöngu.

Skortur hefur verið á gögnum til að færa rök fyrir takmörkunum á framboði koffínríkra orkudrykkja á Íslandi. Ef Ísland ætlar að setja strangari reglur en almennt gilda á EES-svæðinu þurfa að vera fyrir því haldbær og málefnaleg rök. Áhættumat nefndarinnar er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og með því býr Matvælastofnun nú yfir gögnum til að rökstyðja frekari takmarkanir á framboði orkudrykkja sem innihalda koffín hér á landi til að vernda viðkvæman neytendahóp. 


Getum við bætt efni síðunnar?