Fara í efni

Viðbrögð við náttúruhamförum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í ljósi þess að ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna vísbendinga um aukna virkni í Öræfajökli, vill Matvælastofnun minna dýraeigendur á að huga að áætlunum sínum um viðbrögð við náttúruhamförum.

Þar sem náttúruhamfarir gera oft ekki boð á undan sér, ættu dýraeigendur að gera áætlanir um skyndileg viðbrögð við mismunandi vá og undirbúa aðstæður eftir því sem kostur er, með það að markmiði að koma í veg fyrir slys og aðrar þjáningar dýranna. Sér í lagi á þetta við um aðstæður sem valda því að eigendur gætu þurft að yfirgefa dýrin í skyndi.

Við gerð viðbragðsáætlana þyrftu eigendur að velta fyrir sér hvernig þeir telja að dýrunum sé best borgið miðað við tilteknar aðstæður, s.s. hættu á flóði, öskufalli, ofsaveðri o.s.frv. og gera ráðstafanir í samræmi við það. Jafnframt ættu þeir að tryggja eftir föngum að til staðar sé nauðsynlegur búnaður fyrir eigið öryggi og dýranna, sem og flutningstæki til rýmingar ef til þess kæmi.

Dýraeigendur þyrftu einnig að íhuga hvort aðrir geti sinnt dýrunum ef þeir sjálfir eru ekki í stakk búnir til þess. Til að auðvelda björgunarsveitum eða öðrum ókunnugum umhirðu dýranna, ætti hver og einn dýraeigandi að leitast við að hafa eftirtaldar upplýsingar uppfærðar og sýnilegar á staðnum á hverjum tíma:

  1. Nöfn, heimilisföng og símanúmer þeirra sem þekkja best til
  2. Upplýsingar um hvar finna megi lista yfir dýrin með númerum og/eða öðrum einkennum
  3. Upplýsingar um veikindi dýra, burði og aðra mikilvæga þætti
  4. Upplýsingar um fjölda dýra og staðsetningu þeirra í húsum og beitarhólfum
  5. Kort yfir hús og beitarhólf
  6. Leiðbeiningar um helstu verk, s.s. fóðrun og mjaltir
  7. Upplýsingar um fóður, s.s. staðsetningu og birgðir
  8. Upplýsingar um stjórnun mikilvægs tækjabúnaðar, s.s. mjalta-, fóður- og loftræstikerfis, vararafstöðvar o.s.frv.

Einstaklingsmerkingar dýra eru mikilvægar í þessu sambandi, meðal annars með tilliti til umönnunar og til að koma dýrum sem lent hafa á flækingi til síns heima.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?