Fara í efni

Varúðarráðstöfunum gegn fuglaflensu aflétt

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í lok síðustu viku felldi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr gildi varúðarráðstöfunum gegn fuglaflensu, að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Stofnunin hefur lækkað viðbúnaðarstig þar sem hún metur smithættu núna lága. Það þýðir að leyfilegt er á ný að hleypa alifuglum út úr húsi eða út fyrir yfirbyggð gerði. Leyfilegt er að halda sýningar og aðrar samkomur með fugla. Stofnunin hvetur þó fuglaeigendur til að vera áfram á varðbergi gagnvart fuglaflensu og gæta fyllstu varúðar áður en fuglum er hleypt út.

Starfshópur vegna fuglaflensu, sem í eru sérfræðingar Matvælastofnunar, Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar HÍ að Keldum, telja að nú séu litlar líkur á að alvarlegt afbrigði af fuglaflensu sé til staðar í villtum fuglum hér á landi. Mat hópsins byggir á því að engar fuglaflensuveirur hafa greinst í þeim dauðum villtum fuglum sem tilkynnt hefur verið um og sýni hafa verið tekin úr. Flestir farfuglar eru komnir til landsins. Hópurinn bendir á að á vetrarstöðvum íslenskra farfugla í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi þar sem sýkingar með fuglaflensu hafa verið tíðar síðastliðinn vetur eru ennþá í gildi takmarkanir til að vernda alifugla fyrir smiti úr villtum fuglum. Enn greinist fuglaflensa í þeim löndum, bæði í alifuglum og villtum fuglum, en greiningum hefur fækkað undanfarið.

Matvælastofnun hefur því lagt til að þeim tímabundnu varúðarráðstöfunum sem fyrirskipaðar voru í mars á þessu ári verði aflétt. Það þýðir að ekki er lengur krafist að alifuglar og aðrir fuglar í haldi séu haldnir í lokuðu gerði og undir þaki eða innandyra. Matvælastofnun er þó áfram að hvetja fuglaeigendur til að gæta smitvarna til að verja fugla sína gegn smiti frá villtum fuglum, því þrátt fyrir að litlar líkur séu á smiti þá er það ekki útilokað. Jafnframt hvetur Matvælastofnun fuglaeigendur að gæta smitvarna á útisvæði fuglahúsa áður en fuglunum er hleypt út. Smithætta er enn til staðar í villtum fuglum og í umhverfi sem hefur verið mengað af driti villtra fugla, þar með talið í pollum og tjörnum. Fuglaflensuveiran getur lifað í margar vikur í smituðu umhverfi við ákveðnar aðstæður svo sem kulda og raka. Stofnunin mælir þess vegna með að:

  • gera umhverfið óaðlaðandi fyrir villta fugla, sér í lagi fyrir andfugla, máva, vaðfugla, ránfugla og hræætur, t.d. með fuglahræðum
  • halda villtum fuglum fjarri fóðri og tryggja að ekki séu fóðurleifar sem laða að villta fugla
  • huga að því að loka útisvæði með neti yfir gerði
  • girða af óhrein svæði s.s. svæði sem hafa verið heimsótt af villtum fuglum undanfarið
  • þrífa og sótthreinsa útisvæði með hörðu undirlagi ef hægt er
  • nota sólarljós og þurrkur til að draga úr smithættu í umhverfi fugla sem ekki er hægt að þrífa
  • nota spæni á blautum svæðum þar sem spænir hafa veirudrepandi eiginleika
  • þurrka blaut svæði og polla
  • halda áfram að takmarka aðgang fólks að fuglum í haldi og halda heimsóknum í lágmarki

Það þarf að hafa í huga að endur og gæsir með fuglaflensu sýna yfirleitt lítil smiteinkenni en hænsnfuglar og kalkúnar eru mun viðkvæmari fyrir sýkingu.

Mikilvægt er að fuglaeigendur fylgist áfram með heilbrigði fuglanna og tilkynni tafarlaust til Matvælastofnunar um aukin afföll eða grunsamleg veikindi í sínum fuglum.

Almenningur er áfram beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar um dauða villta fugla nema augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?