Fara í efni

Úttekt ESA á opinberu eftirliti með matvælum og fóðri sem ekki eru úr dýraríkinu, sem koma til landsins frá þriðju ríkjum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur birt skýrslu með niðurstöðum úttektar sem framkvæmd var dagana 21. til 30. Mars 2022.

Tilgangur úttektarinnar var að sannreyna að farið væri að lögum um opinbert eftirlit með vörum sem ekki eru úr dýraríkinu (PNAO), sem fluttar eru til landsins frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar er um að ræða reglur ESB um tímabundið aukið opinbert eftirlit og neyðarráðstafanir vegna innflutnings á tilteknum matvælum og fóðri sem ekki eru úr dýraríkinu.

Megin niðurstöður úttektar ESA eru að til staðar sé grunnur að opinberu eftirliti með umræddum vörum sem koma til landsins. Ef sendingar eru tilkynntar er fullnægjandi skjala-, auðkennis- og heilnæmisskoðun framkvæmd í samræmi við kröfur ESB. Þá uppfylla landamæraeftirlitsstöðvar á Íslandi almennt lágmarkskröfur í samræmi við reglur þar að lútandi.

Hins vegar fundust veikleikar í eftirlitskerfinu sem lúta að því að tryggja að viðkomandi vörusendingar frá þriðju ríkjum séu bornar undir opinbert eftirlit, áður en þær eru settar á markað.  Matvælastofnun hafði þegar, í samvinnu við Tollyfirvöld,  gert ráðstafanir til að bregðast við hluta af þessum veikleikum en erfitt er að meta skilvirkni kerfisins til lengri tíma litið.

Gerðar eru kröfur til úrbóta og tilmælum beint til lögbærra yfirvalda á Íslandi, sem miða að því að bæta úr greindum annmörkum og styrkja framkvæmd eftirlitsins.

Niðurstöður eftirlits ESA eru settar fram í lokaskýrslu og með skýrslunni fylgir tímasett úrbótaáætlun frá stjórnvöldum og eftirlitsaðilum hérlendis.

Vinna við úrbætur er þegar hafin hjá yfirvöldum til að auka skilvirkni og áhrif eftirlitsins, m.a. með uppfærslu á skráðu verklagi og síur í samstarfi við Tollyfirvöld.


Getum við bætt efni síðunnar?