Fara í efni

Úttekt á sælgætisbörum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Mikil aukning hefur orðið að undanförnu á sælgætissölu í sjálfsafgreiðslu. Umræða hefur komið upp varðandi sælgætisbari þ.e. hvernig staðið er að sölunni hvað varðar hreinlæti og umgengni. Það sem gerir sælgætisbari verri en t.d. salatbari er að sælgætisbarir eru að hluta til gerðir út á aðgengi fyrir börn, sem oft á tíðum eru ekki meðvituð um hreinlæti. 
  
Í ljósi umræðunnar um sælgætisbari setti heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis af stað úttekt á þessari þjónustu. Við úttektina var stuðst við samræmdan spurningarlista (sjá viðhengi), sem lagður var fyrir ábyrgðaraðila sælgætisbars á öllum sölustöðunum. 

Óinnpakkað sælgæti telst í skilningi laga sem óvarin matvæli og því þarf að gæta fyllsta hreinlætis við meðhöndlun á því. Í 10. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 með síðari breytingum segir: Matvælafyrirtæki skulu haga starfsemi sinni í samræmi við reglur um almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt“.

Að lokinni úttekt er bersýnilegt að þrif og umgengni í kringum sælgætisbari er þess eðlis að mikil þörf er á úrbótum. Er það mat eftirlitsaðila að margt megi betur fara í þeim efnum. Í úttektinni var farið á 36 sölustaði á eftirlitssvæðinu. Í meirihluta tilfella er almenn umgengni ágæt eða góð. Í tæplega í fjórðungi tilfella slæm eða óviðunandi. Það er áríðandi að sett verði upp þrifaáætlun fyrir sælgætisbari á sölustöðum, sem verði þá hluti af innra eftirliti verslunarinnar. Þess má geta að vafasamt er að selja óvarið sælgæti í sjálfsafgreiðslu sem er í seilingarfjarlægð fyrir ung börn.

Það kom á óvart við eftirlit að einungis tvær verslanir voru með innihaldsmerkingar í lagi. Samkvæmt 28 gr. reglugerðar nr. 503/2005 um merkingu matvæla er áskilið að seljandi geti veitt kaupanda upplýsingar um innihald vöru. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis vill beina því til rekstraraðila sem eru með sælgætisbari að koma sér upp tilskyldum innihaldslýsingum. Þannig að innihaldslýsingar séu annað hvort tilgreindar við sælgætisbarinn eða í þar til gerðri möppu sem neytendur geta nálgast án mikillar fyrirhafnar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?