Fara í efni

Úttekt á innflutningseftirliti og notkun á skjalakerfinu TRACES

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur birt skýrslu um niðurstöður úttektar stofnunarinnar á eftirliti með innflutningi og umflutningi á dýraafurðum, aukaafurðum úr dýraríkinu og lifandi dýrum á Íslandi. Úttekt ESA hafði það marmið að sannreyna hversu vel eftirlitið samræmist löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) auk þess að fylgja eftir tillögum sínum að úrbótum frá fyrri úttektum á þessu sviði. Áhersla var einnig lögð á að skoða notkun TRACES, sem er samevrópskt skjalakerfi fyrir útgáfu á samræmdu innflutningsvottorði fyrir dýraafurðir og lifandi dýr við innflutning og viðskipti á Íslandi og EES. Úttektin fór fram 12.-16. júní síðastliðinn.

Innflutningseftirlit er í höndum Matvælastofnunar og Embættis tollstjóra. Úttekt ESA leiddi í ljós að viðkomandi löggjöf hefur verið innleidd í íslenskt regluverk. Innflutningseftirlitið nýtur stuðnings af samvinnu og samhæfingu milli ofangreindra eftirlitsaðila, auk þess sem það hefur fullnægjandi mannafla, þjálfun og skjalfestar vinnureglur. Úttektin sýndi einnig að að úrbætur hafa orðið í kjölfar fyrri eftirlitsferða ESA. Innflutningseftirlitið er betur samræmt, þjálfun starfsfólks hefur verið bætt og skýrar veklagsreglur eru til staðar varðandi eftirlit Matvælastofnunar. Fortilkynningar um sendingar og sannprófanir á skilvirkni eftirlitsins hafa líka færst til betri vegar.

Í niðurstöðunum eru dregnir fram vissir veikleikar í innflutningseftirliti Matvælastofnunar og lagðar fram tillögur að úrbótum.

Ekki þykir fyllilega tryggt að eftirlitið sé eingöngu framkvæmt af starfsfólki sem hefur heimild varðandi dýraafurðir, aðrar en fiskafurðir. Kerfi til upplýsingaöflunar, s.s. tölvukerfi tolls og farmskrár mætti nýta betur og skoðun á viðeigandi upplýsingum mætti vera kerfisbundnari, einkum varðandi sendingar í umflutningi og umhleðslu.

Dýraheilbrigðiseftirlit Matvælastofnunar er yfirleitt framkvæmt í samræmi við áætlað fyrirkomulag. Niðurstöður úttektarinnar leiddu þó í ljós að gallar í skjalaeftirliti ógna skilvirkni kerfisins til að koma í veg fyrir að sendingar sem uppfylla ekki innflutningskröfur séu fluttar inn á EES.

Eftirlits- og sýnatökuáætlun var til staðar og í framkvæmd, en aðbúnaði til sýnatöku var ábótavant.

TRACES er samræmt kerfi fyrir útgáfu á innflutningsskjölum fyrir dýraafurðir á öllu EES svæðinu. Almennt reyndist skjalakerfið rétt notað varðandi skoðanir á landamærastöð. Hinsvegar leiddi úttektin í ljós visst ósamræmi í notkun kerfisins og lagt til að úrbætur verði gerðar.

Þær tvær landamærastöðvar sem skoðaðar voru, voru almennt í samræmi við kröfur varðandi aðstöðu, búnað og hreinlæti.

Matvælastofnun hefur tekið athugasemdirnar sem settar eru fram í skýrslu ESA til greina og vinnur í samræmi við tímasetta aðgerðaráætlun sem lögð var fram í kjölfar úttektarinnar. Áætlunin og athugasemdir íslenskra stjórnvalda koma fram í viðauka skýrslunnar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?