Fara í efni

Úttekt á eftirliti með lyfja- og aðskotaefnaleifum í dýraafurðum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur birt skýrslu um niðurstöður úttektar á innleiðingu löggjafar um eftirlit með leifum dýralyfja og aðskotaefna í lifandi dýrum og dýraafurðum, þar með talið eftirlit með heildsölu og smásöludreifingu lyfja og notkun á dýralyfjum, en stofnunin  hefur eftirlit með framkvæmd löggjafarinnar hér á landi. Úttektin fór fram 8.-12. febrúar síðastliðinn, en áður hafði farið fram úttekt vegna þessa málaflokks í desember 2011.

Mat á umsóknum um markaðsleyfi fyrir dýralyf og eftirlit með lyfjaheildsölum og lyfjasölu dýralækna er í höndum Lyfjastofnunar, en Matvælastofnun hefur eftirlit með notkun og ávísun dýralyfja og sér einnig um sýnatökur og rannsóknir vegna lyfjaleifa í matvælum.

Úttektin sýndi að framfarir hafa orðið hvað varðar Landsáætlun um vöktun lyfjaleifa og óæskilegra efna í búfjárafurðum (NRMP) en samt er rými fyrir úrbætur þegar kemur að tíðni sýnatöku og sýnafjölda innan ákveðinna flokka sýna sem ekki voru í áætluninni áður en löggjöfin var innleidd 2011. Val á efnum sem skimað er fyrir innan þeirra efnahópa sem lögboðið er að skima fyrir þarf að uppfæra í nokkrum tilfellum í samræmi við viðeigandi áhættuþætti.  

Árangur NRMP er ekki talinn fyllilega tryggður þar sem úttektarnefndin fann merki um takmarkaða samvinnu innan og milli stofnananna hvað varðar skipulagningu áætlunarinnar. Einnig kom fram að bæta þarf yfirumsjón með virkni hennar, dreifa sýnatökum betur yfir árið og bæta eftirfylgni með niðurstöðum sem ekki samræmast kröfum.

Við afhendingu dýralyfja til dýraeigenda er gerð athugasemd við að dýralyf skuli í sumum tilfellum vera afhent án þess að sérstakur lyfseðill dýralæknis liggi til grundvallar afhendingunni. Það kom einnig fram að tímabundið hafi eftirfylgni varðandi frávik sem komu fram við eftirlit í lyfjasölu dýralækna verið takmörkuð og tímabundið hafi eftirlitstíðni minnkað umtalsvert. Fram kom að bæta þarf eftirlit með notkun dýralyfja á bóndabýlum svo tryggt sé að upplýsingar sem varða öryggi afurðanna séu réttar við slátrun.

Innlend tilvísunarrannsóknastofa hefur einungis verið tilnefnd fyrir þungmálma. Hinsvegar er á Íslandi unnið að undirbúningi tilnefningar rannsóknastofu fyrir lyfjaleifar og verður að líkindum gengið frá henni fyrir árslok.

Þrátt fyrir augljósar umbætur eins og rafræna gagnagrunna og fjölgun sýna í ákveðnum tegundum þá er það niðurstaða úttektarnefndarinnar að eftirlitið tryggi ekki að allar kröfur löggjafarinnar séu uppfylltar.

Matvælastofnun hefur í samráði við Lyfjastofnun útbúið tímasetta áætlun til úrbóta þar sem brugðist er við þeim ábendingum sem fram komu í úttektarskýrslunni og birtist hún sem viðauki við skýrslu ESA.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?