Fara í efni

Úttekt á eftirliti með efnum sem snerta matvæli

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Niðurstöður úttektar eftirlitsstofnunnar EFTA (ESA) á eftirliti með efnum og hlutum sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, þ.m.t. umbúðir, hafa borist eftirlitsaðilum hérlendis.

ESA kom í eftirlitsheimsókn til Íslands 3-7. desember síðastliðinn til að taka út eftirlit á Íslandi með efnum og hlutum sem ætlað er að snerta matvæli. Undir flokkinn efni og hlutir heyra meðal annars umbúðir sem notaðar eru fyrir matvæli.

Eftirlit með framleiðslu efna og hluta og markaðsetningu þeirra er hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna, sem og eftirlit með smásölum og notkun efna og hluta hjá matvælafyrirtækjum sem eru undir eftirliti heilbrigðiseftirlitsins. Matvælastofnun fer síðan með eftirlit með notkun efna og hluta hjá matvælafyrirtækjum sem framleiða dýraafurðir.

Fjórir eftirlitsmenn komu til Íslands, tveir frá ESA, áheyrnarfulltrúi frá ESB og sérfræðingur frá rannsóknastofu (NRL) til ráðgjafar. Farið var í heimsókn til tveggja  heilbrigðiseftirlitssvæða og ein umdæmisskrifstofa Matvælastofnunar var heimsótt. Eftirlitsmenn ESA fóru með íslenskum eftirlitsmönnum í 2 plastverksmiðjur, innflutningsfyrirtæki, sælgætisframleiðslu og mjólkurstöð.

Niðurstöður eftirlits ESA eru settar fram í lokaskýrslu og þar koma fram í 10 liðum tilmæli um úrbætur með eftirliti með efnum og hlutum. Helstu athugasemdir ESA snúa að því að ekki sé búið að innleiða reglugerð um sérstakt innflutningseftirlit með innflutningi á ákveðnum plastvörum sem eru upprunnar í Kína og Kong Hong. Þá segir í skýrslunni að tryggja þurfi fullnægjandi eftirlit með framleiðslu efna og hluta, þ.m.t. merkingar þessara vara, rekjanleika og að skrifleg gögn séu í samræmi við reglugerðir. Jafnframt koma fram athugasemdir vegna samræmingar eftirlits hérlendis sem og að auka þurfi eftirlit með notkun efna og hluta hjá matvælaframleiðendum.

Með skýrslunni fylgir tímasett úrbótaáætlun frá eftirlitsaðilum hérlendis og er vinna við úrbætur hafin. Til að hægt sé að gera nauðsynlegar úrbætur er ljóst að gera verður breytingar á lögum nr. 93/1995 um matvæli, m.a. til að skýra betur skyldur og heimildir eftirlitsaðila til að sinna eftirlitinu og til að innheimta eftirlitsgjöld. Jafnframt þarf að auka við þjálfun starfsmanna, tilnefna tilvísunarrannsóknarstofu og innleiða reglugerðir hérlendis sem teknar hafa verið inn í EES-samninginn.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?