Fara í efni

Útivist nautgripa - átaksverkefni 2009

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 

Skilningur á velferð og vellíðan dýra hefur farið vaxandi á síðustu árum. Rannsóknir á atferli dýra og líðan þeirra við þær aðstæður sem þeim eru búnar hafa færst í vöxt. Á slíkum rannsóknum byggjast lög og reglugerðir um meðferð og aðbúnað húsdýra. Þessar reglur geta virst íþyngjandi fyrir eigandann, en sjaldnast er það svo. Þegar dýrinu líður vel, hefur rúmt um sig og getur hreyft sig, þroskast það hraðar, gefur meiri afurðir og verður hraustara.


  
Á undanförnum árum hafa fjósbyggingar breyst til hins betra. Bændur hafa byggt ný fjós eða breytt eldri fjósum og stækkað þau þannig að kýrnar ganga lausar í fjósinu og leggjast á bása sína þegar þeim hentar. Í básunum eru mottur eða dýnur sem eru mýkri og betri en þær gömlu. Í mörgum fjósum eru sjálfvirkar mjaltavélar, mjaltaþjónar, sem mjólka kýrnar þegar þær ganga í gegnum mjaltabásinn. Þetta eru að mörgu leyti góð tæki, m.a. vegna þess að kýrnar koma oftar en tvisvar á dag til mjalta, sem léttir á júgrum þeirra kúa sem mest mjólka.

Það er sama hversu góð fjósin eru, það jafnast ekkert á við það fyrir kýrnar að komast út til að bíta gras, rétta úr fótunum, anda að sér fersku lofti og leggjast á mjúka jörð. Legusár vetrarins gróa hratt á sumarbeit og hormónastarfsemi heiladinguls fær eðlilega örvun með sólarljósinu. Þess vegna kveða reglur á um að tryggja skuli öllum nautgripum, nema graðnautum eldri en 6 mánaða, 8 vikna útivist hið minnsta ár hvert. Með tilkomu nýrra fjósa og betri aðbúnaði hafa margir bændur freistast til að halda að nóg sé að gert og setja kýrnar ekki á beit.

Matvælastofnun hefur nú hrundið af stað átaksverkefninu Útivist nautgripa sem felst í því að fylgja eftir meintum brotum á reglum um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra. Verkefnið felst í því að héraðsdýralæknar fara í eftirlit á kúabú þar sem grunur er um að nautgripir séu ekki látnir út. Bændur sem uppvísir verða að því að setja gripi sína ekki út munu fá bréf þar sem krafa verður gerð um úrbætur og verður málinu fylgt eftir þar til úrlausn fæst.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?