Útgáfa rekstrarleyfis til Arnarlax vegna fiskeldis í Ísafjarðardjúpi
Matvælastofnun hefur veitt Arnarlax ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi í samræmi við lög um fiskeldi. Matvælastofnun auglýsti tillögu að rekstrarleyfi á vef stofnunarinnar 29. febrúar 2024 og var frestur til að skila inn athugasemdum til 28. mars 2024.
Arnarlax sótti um nýtt rekstrarleyfi fyrir 10.000 tonnum af frjóum og ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi og var umsókn móttekin 21. maí 2019. Matvælaráðuneytið hefur birt burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar fyrir fiskeldi á Íslandi. Burðarþolsmat Ísafjarðardjúps er metið 30.000 tonn og heimilar áhættumat erfðablöndunar 12.000 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi í Djúpinu. Matvælastofnun hefur þegar úthlutað 12.000 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi og því mun rekstrarleyfi Arnarlax ehf., FE-1178, heimila 10.000 tonn af ófrjóum laxi. Starsemin er einnig háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar.
Framkvæmd fyrirtækisins fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.
Heimilt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu rekstrarleyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu þessarar auglýsingar.