Útflutningur hrossa hefst á ný 15. September
Stefnt er að því að
útflutningur hrossa hefjist á ný 15. september n.k. eftir fjögurra mánaða
hlé vegna faraldurs smitandi hósta. |
Ítarlegar rannsóknir á virtum rannsóknastofnunum hér á landi og erlendis benda eindregið til þess að bakterían Streptococcus zooepidemicus sé helsti og mjög líklega eini orsakavaldur sjúkdómsins. Bakterían hefur ræktast úr öllum hrossum með hósta og litað nefrennsli. Ekki hefur verið hægt að tengja sjúkdóminn við neina þekkta veirusýkingu í hrossum og ekkert bendir til að veirusjúkdómur né ónæmisbæling liggi að baki sjúkdómsins. Fullyrðingar um annað eiga ekki við rök að styðjast.
Þessi baktería er þekktur sjúkdómsvaldur í hrossum um allan heim þó ekki verði séð að hún hafi áður valdið viðlíka faraldri. Sem kunnugt er er meðgöngutími sjúkdómsins langur og það getur tekið 3-4 vikur að koma í ljós hvort smitaðan hest er að finna í afmörkuðum hrossahópi. Þær reglur sem nú eru kynntar eru því nauðsynlegar til að draga úr hættunni á að smituð hross fari úr landi. Þess ber að geta að þrátt fyrir að smituð hross hafi verið í hópi þeirra sem fóru úr landi 10. maí sl varð ekki vart við að þau smituðu út frá sér í nýjum heimkynnum.
Sýking af völdum Streptococcus zooepidemicus er ekki meðal tilkynningaskildra sjúkdóma til Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar og ekki hefur verið lagt bann við flutningi hrossa frá Íslandi. Lönd í Evrópusambandinu gera þær kröfur eins og ævinlega að hross sem þau taka við séu án sjúkdómseinkenna og að það sama eigi við um öll hross sem þau hafi umgengist undangengna 30 daga (60 daga við flutning til USA). Þannig er hættunni á útbreiðslu sjúkdóma haldið í lágmarki.
Við þær sjúkdómsaðstæður sem nú ríkja þarf að halda fyrirhuguð útflutningshross í einangruðum hópum heima á bæjunum, í nokkurs konar heimaeinangrun, í a.m.k. 30 daga fyrir útflutning (60 daga við flutning til USA). Einangrunin og eftirlit með hrossunum verður á ábyrgð eigenda eða umráðamanns og til frekara öryggis skal einangrunaraðstaðan og heilbrigði hrossanna metið af dýralækni áður en þau eru send af stað til útflytanda. Yfirlýsing eiganda/umráðamanns og viðkomandi dýralæknis um að hrossin séu einkennalaus og að reglum um einangrun hafi verið fylgt skulu fylgja með hverju hrossi til útflytjanda og áfram til héraðsdýralæknis á sérstökum eyðublöðum. Eyðublöðin er að finna á heimasíðu Matvælastofnunar og hjá útflytjendum og á þeim er nánari lýsing á reglum um einangrunina. Héraðsdýralæknir Gullbringu- og Kjósarumdæmis veitir allar nánari upplýsingar.
Ítarefni
- Eyðublað - Yfirlýsing um heimaeinangrun hrossa vegna smitandi hósta
- Upplýsingasíða um smitandi hósta í hrossum