Fara í efni

Úrskurður umboðsmanns um bætur vegna riðuveiki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í kjölfar niðurskurðar á sauðfé tveggja aðila haustið 2004 vegna riðuveiki var leitað var til umboðsmanns og kvartað yfir málsmeðferð og afgreiðslu Matvælastofnunar og landbúnaðarráðuneytisins á uppgjöri bóta til þessara aðila. Meðal þess sem kom fram í úrskurði umboðsmanns var að taka ætti til endurskoðunar vinnubrögð Matvælastofnunar, með það í huga hvernig mætti bæta og hraða afgreiðslu á uppgjöri bóta og greiðslna sem féllu á ríkissjóð í tilefni af niðurskurði vegna riðuveiki og hreinsunar sem af því leiddi. Matvælastofnun bregst jákvætt við úrskurði umboðsmanns og mun fara ítarlega yfir þær athugasemdir í úrskurði hans sem beinast að starfsemi stofnunarinnar.


Fram kom í úrskurði umboðsmanns að afgreiðsla málsins hefði mátt ganga hraðar fyrir sig og vera markvissari. Lagði hann áherslu á að stjórnvöld yrðu við úrlausn mála sem fælu í sér inngrip í eignar- og atvinnuréttindi einstaklinga og lögaðila að hafa ákveðið frumkvæði að því að taka með skýrum hætti og eins fljótt og unnt væri ákvarðanir sem stjórnvöld hefðu forræði á.


Matvælastofnun mun skoða niðurstöður umboðsmanns ásamt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ljóst er að gera þarf ákveðnar breytingar bæði á löggjöfinni og því verklagi sem viðhaft hefur verið fram til þessa. Að því leyti er jákvætt að umboðsmaður hafi tekið málið til umfjöllunar og tilmæli hans og ábendingar munu nýtast vel í þeirri vinnu. Umboðsmaður leggur áherslu á að verklag verði endurskoðað með það í huga hvernig bæta megi og hraða afgreiðslum bóta og greiðslna sem falla á ríkissjóð vegna riðuveiki og hreinsana vegna niðurskurðar. Þetta hafði stofnunin þegar tekið til skoðunar og m.a. gert verklýsingar og vinnuferla vegna riðumála. Þessi gögn höfðu verið kynnt fyrir Landssamtökum sauðfjárbænda og drög að þeim jafnframt send til umboðsmanns Alþingis. Þessar verklýsingar þarf nú að endurskoða með hliðsjón af áliti umboðsmanns. Nánari upplýsingar um viðbrögð Matvælastofnunar á úrskurði umboðsmanns er að finna hér.


Í áliti sínu beinir umboðsmaður þeim tilmælum til landbúnaðarráðherra að breytingar verði gerðar á stjórnvaldsfyrirmælum og stjórnsýsluframkvæmd er lúta að niðurskurði búfjár vegna riðuveiki. Eru það tilmæli hans að betur yrði greint á milli ákvörðunar um förgun bústofnsins og úrlausnar um hvaða bætur bæri að greið og að. ákvörðunin um niðurskurð yrði framvegis tekin með formlegri stjórnvaldsákvörðun. Þá eru það tilmæli umboðsmanns að þau ákvæði reglugerðar sem mæla fyrir um hverjar skuli vera þær stærðir og viðmiðanir sem ráða fjárhæðum förgunar- og afurðatjónsbóta, verði teknar til endurskoðunar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu. Sama gildir um ákvæði reglugerðarinnar um gjalddaga bótanna og að gera skyldi skriflegan samning um allt er lyti að lógun sauðfjárins, tímabundið fjárleysi, greiðslu bóta og hreinsun.


Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til landbúnaðarráðherra að fyrri afgreiðsla á beiðni aðila um leiðréttingu á uppgjöri afurðatjónsbóta fyrir árið 2005 yrði tekin til endurskoðunar. Þá beinir umboðsmaður þeim tilmælum til ráðherra að tekin yrði á ný afstaða til þess hvort tilefni sé til að endurskoða greiðslur vegna efniskostnaðar við hreinsun og sótthreinsun. Einnig voru það tilmæli umboðsmanns að tekið verði til endurskoðunar við hvaða tíma hefði verið rétt að miða greiðslu förgunarbóta og hvaða áhrif það hefði á skyldu til greiðslu vaxta. Enn fremur beinir umboðsmaður tilmælum til ráðherra að uppgjör og greiðsla vaxta vegna bóta og greiðslu á efniskostnaði vegna hreinsunar yrðu tekin til endurskoðunar.


Hægt er að nálgast úrskurð umboðsmanns í heild sinni hér.



Getum við bætt efni síðunnar?