Úrskurður um birtingu persónuupplýsinga
Kvartað var til Persónuverndar vorið 2017 vegna frétta sem birtust á heimasíðu Matvælastofnunar og þess krafist að fréttirnar og öll fylgigögn yrðu fjarlægð. Í fylgigagni einnar fréttarinnar komu meðal annars fram upplýsingar um einkamálefni einstaklings.
Þrátt fyrir að Persónuvernd hafi ekki fallist á að öll gögn yrðu fjarlægð af heimasíðu stofnunarinnar, úrskurðaði stofnunin að viðkvæmar persónuupplýsingar, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, bæri að afmá úr gögnunum eins og þau birtast á heimasíðu Matvælastofnunar.
Persónuvernd krafðist þess að tilteknar upplýsingar yrðu afmáðar úr einu fylgigagni og það tilkynnt til Persónuverndar eigi síðar en 29. júní 2018. Matvælastofnun hefur þegar brugðist við úrskurðinum með því að fjarlægja þessar upplýsingar af heimasíðu sinni.
Frétt uppfærð 08.06.18 kl. 14:47