Fara í efni

Úrskurður ráðuneytis. Dagsektir MAST felldar úr gildi.

Nýlega var kveðinn upp úrskurður í atvinnuvegaráðuneyti varðandi herðakambsslár/hálsboga í fjósi á Suðurlandi.

Forsaga málsins er sú að í gildandi reglugerð um velferð nautgripa er fjallað í viðauka I um lágmarksstærðir húsa, innréttinga, stía og búnaðar. Í þessum viðauka segir m.a.:

„Herðakambsslá skal ekki vera lægri en 135 cm.“ Enga skilgreiningu er að finna í reglugerðinni á hugtakinu „herðakambsslá.“

Í einu fjósi á Suðurlandi mældust herðakambsslár vera lægri en 135 cm. Bóndinn neitaði að hækka þær og hélt því fram að um „hálsboga“ væri að ræða en ekki „herðakambsslár.“ MAST gat ekki fallist á það og lagði dagsektir á bóndann til að knýja á um úrbætur. Engir áverkar sáust þó á hálsum kúnna.

Bóndinn kærði dagsektirnar til atvinnuvegaráðuneytis sem felldi þær úr gildi. Í úrskurðinum segir að með vísan til gagna málsins og þess að hugtakið er ekki skilgreint í reglugerðinni verði ekki talið að hálsbogar verði lagðir að jöfnu við herðakambsslá. Álagning dagsekta sé íþyngjandi úrræði og því mikilvægt að ákvörðun um slíkar sektir byggi á skýrum grundvelli. Að mati ráðuneytisins var um að ræða slíkan vafa í málinu og því þótti rétt að túlka þennan vafa kæranda í hag.

Ákvörðun MAST um dagsektir var því felld úr gildi.


Getum við bætt efni síðunnar?