Fara í efni

Úrbætur hjá Kosti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun fagnar því sem fram kemur í frétt Morgunblaðsins fimmtudaginn 7. mars um að fyrirtækið Kostur hyggist nú koma á úrbótum í merkingu matvæla þannig að neytendur fái þær upplýsingar sem þeir eiga kröfu á. Stofnunin harmar hins vegar að Jón Gerald Sullenberger forráðamaður fyrirtækisins skuli ekki hafa áttað sig á því að það er Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, ekki Matvælastofnun, sem heimsótti fyrirtækið tæplega 20 sinnum á síðasta ári og gerði þar fjölmargar kröfur um úrbætur. Heimsóknir Matvælastofnunar voru ekki margar og að mestu í samvinnu við heilbrigðiseftirlitið. Engu að síður verður að álykta sem svo að þessar tíðu heimsóknir heilbrigðiseftirlitsins og ítrekaðar kröfur um úrbætur hafi að lokum orðið til þess að fyrirtækið breytir nú sinni forgangsröðun og vill bæta úr málum.

Matvælastofnun vill einnig leiðrétta rangfærslur í ummælum Jóns Geralds Sullenberger þar sem því var haldið fram að úthlutun fjárveitinga til Matvælastofnunar hafi aukist úr 580 milljónum árið 2006 í 1,2 milljarða árið 2012. Í fyrsta lagi var Matvælastofnun ekki til árið 2006, en hún var stofnuð 1. janúar 2008 þegar matvælaeftirlitssvið Umhverfisstofnunar og Fiskistofu sameinuðust Landbúnaðarstofnun, með tilheyrandi aukningu verkefna, starfsmanna og fjárheimilda. Stofnunin tók þá meðal annars yfir yfirumsjón með starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og eftirlit með starfsemi skoðunarstofa í sjávarútvegi. Framlag ríkisins til Landbúnaðarstofnunar á fjárlögum 2006 var 372 milljónir króna, sem síðan var hækkað með fjáraukalögum í alls 532 milljónir. Ríkisframlag til Matvælastofnunar á síðasta ári var síðan 793 milljónir, ekki 1,2 milljarðar eins og haldið er fram. Jón Gerald er því að bera saman ólíkar stofnanir þar sem grundvallar munur er á umfangi og verkefnum og virðist auk þess vera að skoða almennar rekstrarforsendur í fjárlögum en ekki ríkisframlag eins og skilja má af ummælum hans.

Vegna hagræðingar í rekstri frá hruni hafa fjárheimildir til Matvælastofnunar dregist saman á hverju ári frá stofnun hennar. Á sama tíma hefur stofnunin tekið yfir fjölda nýrra verkefna og eitt af þeim stærri var innleiðing nýrrar matvælalöggjafar sem hefur staðið yfir frá árinu 2010. Snemma á því ári tók Matvælastofnun yfir eftirlit með kjötvinnslum og mjólkurbúum frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga og ári síðar eftirlit skoðunarstofa með fiskvinnslufyrirtækjum. Í lok ársins 2011 var síðan gildistaka nýrrar löggjafar um hollustuhætti og öryggi búvara eins og kjöts, mjólkur og eggja. Matvælastofnun hefur einnig tekið yfir eftirlit með dýravernd frá Umhverfisstofnun og verkefni vegna forðagæslu og greiðslna til bænda hafa aukist. Niðurstaðan er því sú að Matvælastofnun hefur tekið yfir fjölda nýrra verkefna á sama tíma og dregið hefur úr ríkisframlagi til starfseminnar vegna almenns niðurskurðar.


Getum við bætt efni síðunnar?