Upplýsingar til bænda vegna eldgoss í Grímsvötnum
![]() Eldgos í Grímsvötnum 22. maí 2011 Matthew Roberts - Veðurstofa Íslands |
|
- Meta aðstæður og ákveða hvort skepnum sé betur borgið innanhúss eða utan.
- Tryggja eftir því sem kostur er að skepnur á útigangi geti forðað sér undan flóði.
- Hafa samband við dýralækni ef skepnur slasast eða verða veikar. Reynt er að tryggja að dýralæknar komist þangað sem nauðsyn krefur.
Gosefni sem berast með vindi geta mengað gróður og vatn og borist ofan í skepnur. Öskukornin eru oddhvöss eins og örsmá glerbrot. Þau særa augu, öndunarfæri og meltingarveg. Þau geta valdið niðurgangi, tannsliti og fótsæri. Flúor loðir við yfirborð kornanna, þeim mun meiri sem askan er fínni. Því er fín aska langt frá eldstöð síst minni hætta skepnum en aska sem fellur nær.
Flúor bindur kalsíum í torleyst sambönd og stuðlar þannig að kalkskorti. Bráð eitrun getur valdið doða í ám og kúm, og klumsi í hryssum, einkum seint á meðgöngu og um burð eða köstun. Áhrif langvinnrar eitrunar er gaddur á jöxlum, sem gerir skepnunum erfitt að bíta, tyggja og jórtra, og beinmyndanir á fótleggjum, sem valda helti. Önnur eitrunarhætta, sem við má búast í tengslum við eldgos, er vegna koltvísýrings í gosgufum. Hann sest í lægðir og getur valdið köfnun.
Hættan vegna eldgoss af þessari gerð er breytileg eftir árstíð, dýrategund, aldri, magni flúors og annarra efna í öskunni og hvert askan berst. Hindra skal ef unnt er öskufall á skepnurnar og í fóður þeirra og sjá til þess að þær hafi aðgang að hreinu drykkjarvatni. Ef aska fellur á óslegið tún á heyskapartíma, er vissara að bíða með slátt þar til rignt hefur, sama gildir um beitiland. Flúorinn þynnist fljótt og eitrunarhætta dvínar, þegar rignir. Falli flúormenguð aska á hey þarf að meta magn flúors, sem gæti borist í skepnurnar og taka ákvörðun um nýtingu heysins á grundvelli þess.
Þolmörk búfjár fyrir flúori í fóðri og drykkjarvatni
Ekki er fullkomið samræmi í vísindagreinum hvað varðar þolmörk búfjár gagnvart flúori í fóðri og drykkjarvatni en algengast er að fyrir nautgripi séu mörkin talin vera 30-40 mg/kg þurrefnis í fóðri og 2.5-4.0 mg/lítra drykkjarvatns. Þolmörk fyrir hross eru af sumum talin vera svipuð og fyrir nautgripi en aðrir telja þau vera mun lægri. Þolmörk hjá sauðfé eru oftast sett við 70-100 mg/kg þurrefnis í fóðri og 12-15 mg/lítra drykkjarvatns. Ef magn flúors í fóðri og drykkjarvatni er yfir mörkum í langan tíma geta komið fram einkenni í tönnum og beinum. Hafa ber í huga að ýmsir þættir hafa áhrif á þolmörkin, s.s. aldur dýrsins, almennt næringar- og heilbrigðisástand og streita. Ung dýr, dýr í lélegu ásigkomulagi og dýr sem eru undir álagi vegna lélegs aðbúnaðar eða annarra þátta eru mun viðkvæmari.
Bráð eituráhrif geta komið fram í nautgripum, sauðfé og hrossum ef magn flúors í þurrefni í fóðri fer yfir 250 mg/kg. Algengustu einkenni eru doði í kúm og kindum, og klums í hryssum, en einnig ýmis einkenni frá taugakerfi og meltingarfærum.