Fara í efni

Upplýsingagjöf og áhætta vegna áburðar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun sér um matvælaeftirlit, fóðureftirlit og áburðareftirlit með það að markmiði að tryggja heilbrigði plantna, dýra og manna. Vegna þeirrar fjölmiðlaumræðu sem hefur átt sér stað um kadmíum í áburði að undanförnu vill stofnunin koma eftirfarandi á framfæri.

Áburður er í frjálsu flæði innan EES og Matvæla-stofnun hafði því ekki heimild til að hafa afskipti af dreifingu áburðar á síðastliðnu ári fyrr en niðurstöður greininga lágu endanlega fyrir í júní. Þá kom í ljós að áburður, sem þegar var kominn í notkun, innihélt kadmíum yfir leyfilegum mörkum. Dreifingaraðila var þegar tilkynnt um þetta og var áburðurinn afskráður, en í því felst sölubann. Þrátt fyrir þetta var það niðurstaða sérfræðinga stofnunarinnar að notkun áburðar, sem þegar var kominn í dreifingu, hefði ekki í för með sér bráða hættu fyrir umhverfi eða dýr og því var hann ekki innkallaður.

Hér var um afmarkað tilvik að ræða, annað gæti átt við ef mengaður áburður væri notaður yfir lengri tíma og er hlutverk eftirlitsaðila m.a. að fyrirbyggja slíkt. Jafnframt má benda á að það magn kadmíums sem greindist hér nú hefði ekki kallað á aðgerðir í flestum nágrannalöndum okkar og er innan þeirra viðmiðunarmarka sem sett hafa verið í Austurríki og við þau mörk sem í gildi eru í Noregi og Svíþjóð. Flest önnur Evrópuríki hafa ekki tilgreint hámark fyrir kadmíum í áburði. Evrópusambandið vinnur hins vegar að setningu reglna um kadmíum og er gert ráð fyrir að hámarksákvæði verði til að byrja með um þrefalt hærra gildi en hér á landi. Umfjöllun um þetta mál og hættuna af völdum kadmíums í áburði má nálgast hér:

    Kadmíummálið - staðreyndir í stað fréttafárs 

Stofnunin fellst á að æskilegt hefði verið að koma upplýsingum um þetta mál á framfæri við bændur og aðra neytendur þegar ákvörðun lá fyrir og að þá hefði verið gerð grein fyrir afstöðu stofnunarinnar. Heimildir til upplýsingagjafar um niðurstöður eftirlits hafa hins vegar verið takmarkaðar og eru það enn, en Matvælastofnun mun að gefnu þessu tilefni móta sér fastar reglur um upplýsingagjöf og vinna að því að unnt verði að sinna opinberu eftirliti og neytendavernd með gegnsæjum hætti. Þetta hefur verið og er enn eitt af markmiðum stofnunarinnar, en vandamál við upplýsingagjöf eiga sér nokkurn aðdraganda.
 
Í október 2007 tilkynnti Matvælastofnun áburðarinnflytjendum að stofnunin hygðist birta niðurstöður efnagreininga á áburði frá árinu 2007 á heimasíðu sinni. Málið var kært til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, sem felldi ákvörðun Matvælastofnunar úr gildi með þeim rökstuðningi að um eftirlit með efnainnihaldi áburðar giltu lög nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og að skv. lögunum séu Matvælastofnun faldar tilteknar þvingunarráðstafanir, þ.e. að stöðva dreifingu og sölu áburðar komi í ljós að hann uppfylli ekki vörulýsingu. Síðan sagði í úrskurði ráðuneytisins:
 
 „Lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru heimila einungis öflun upplýsinga í þágu þess markmiðs sem að er stefnt með öflun upplýsinganna. Það markmið virðist einkum vera að unnt sé að leggja mat á hvort skilyrði séu til að beita áðurgreindum þvingunarúrræðum laganna. Um leið er önnur og víðtækari hagnýting upplýsinganna óheimil nema þá til hennar sé heimild í öðrum lögum, en ekki verður séð að sú sé raunin í þessu máli. Það leysir stjórnvöld ekki undan nauðsyn lagaheimildar til ráðstafana á vettvangi stjórnsýslu, að um þarfar og nauðsynlegar ráðstafanir sé að ræða. Það er hlutverk löggjafans að ákveða hvaða heimildir skuli standa stjórnvöldum til boða. Ekki verður séð að jafnvel þótt almenningur kynni að eiga rétt til aðgangs að upplýsingum úr áburðareftirliti með vísun til 3. gr. upplýsingalaga að það heimili kærða sérstaka vinnslu og opinbera birtingu þeirra“.


Í kjölfarið á úrskurðinum féll Matvælastofnun frá frekari opinberum birtingum af niðurstöðum efnagreininga úr áburðareftirliti þar sem stofnunin hefði ekki heimildir til þess. Með lögum sem tóku gildi 1. mars 2010 var umræddum lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru breytt og stofnuninni heimilað að birta niðurstöður, en þó með ákveðnum skorðum. Í lögin kom inn ákvæði um skyldur Matvælastofnunar til að upplýsa almenning um eðli áhættu ef rökstuddur grunur leiki á að áburður hefði í för með sér áhættu fyrir heilbrigði manna og dýra. Slíkar ráðstafanir skyldu miðast við eðli, alvarleika og umfang áhættunnar. Jafnframt var ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð þar sem nánar yrði kveðið á um slíka opinbera birtingu og sömuleiðis var ráðherra heimilað að setja reglugerð um birtingu niðurstaðna úr almennu áburðareftirliti. Í reglugerðinni skyldi kveðið á um framsetningu og inntak birtingar, m.a. að hún yrði rafræn og á hvaða tíma skyldi birta slíkar upplýsingar.


Á fyrri hluta ársins 2010 gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út reglugerð um birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með áburði. Þar segir að Matvælastofnun skuli taka árlega saman skýrslu með niðurstöðum úr eftirlit með áburði og að skýrslan skuli innihalda niðurstöður efna- og örverugreininga. Samkvæmt reglugerðinni skal skýrslan birt fyrir lok viðkomandi árs með rafrænum hætti á heimasíðu stofnunarinnar. Þetta var gert bæði fyrir árin 2010 og 2011.


Af þessu má vera ljóst að hendur Matvælastofnunar til birtingar á niðurstöðum eru settar ákveðnar skorður. Stofnuninni ber að taka saman niðurstöður úr eftirliti og birta í skýrslu á heimasíðu sinni í lok hvers árs. Að öðru leyti á einungis að birta niðurstöður úr áburðareftirliti þegar rökstuddur grunur leikur á að tiltekinn áburður hafi í för með sér áhættu fyrir heilbrigði manna og dýra og er þá skylt að upplýsa almenning um eðli áhættunnar. Slíkar ráðstafanir skulu eins og áður segir miðast við eðli, alvarleika og umfang áhættunnar. Jafnframt ber þá að tilgreina tegund vöru, þá áhættu sem kann að vera fyrir hendi og þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið eða gerðar verða til að fyrirbyggja, draga úr eða eyða þessari áhættu.


Einnig er rétt að vekja athygli á því að þótt heimildum stofnunarinnar til að birta efnagreiningar úr áburðareftirlit kunni að vera settar ákveðnar skorður, þá takmarkar slíkt ekki að stofnunin geti veitt almenningi aðgang að slíkum gögnum þar sem það er heimilað, sbr. upplýsingalög nr. 50/1996 og lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfisrétt. Matvælastofnun hefur þegar sent fjölmiðli yfirlit yfir efnagreiningar á áburði frá árinu 2001 til 2009, eftir að beiðni barst um slíkt á grundvelli upplýsingalaga. Fyrir árin 2010 og 2011 hafa þessar upplýsingar þegar verið birtar á vef stofnunarinnar.


Í byrjun júní á síðastliðnu ári, þegar ljóst var að áburðartegund sem markaðssett hafði verið hérlendis innihélt kadmíum í meira magni en leyfilegt er, bar Matvælastofnun að meta hvort hætta stafaði af fyrir heilbrigði manna og dýra í skilningi laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Eftir skoðun málsins, með hliðsjón af magni kadmíums í vörunni, var það niðurstaðan að ekki stafaði hætta af áburðinum. Þar með vaknar spurning um hvort heimild er til að beita þeim upplýsingaúrræðum, sem nú er kveðið á um í breyttum lögum, þar sem þau eru bundin við hættu fyrir heilbrigði manna eða dýra. Þar sem áburðurinn uppfyllti hins vegar ekki þær kröfur sem gerðar eru varðandi magn kadmíums bar Matvælastofnun skylda til að grípa til aðgerða, sem fólust í afskráningu á áburðinum og banni við frekari sölu. Þar sem umræddur áburður var kominn í dreifingu og notkun hans ekki talin hættuleg var ekki tilefni til að innkalla hann frá kaupendum. Auk þess ber stofnuninni að gæta meðalhófs við beitingu þvingunarúrræða.

Matvælastofnun mun fagna því ef niðurstaðan verður sú að lög og reglur veiti stofnuninni á hverjum tíma ótvíræða heimild til upplýsingagjafar um niðurstöður eftirlits. Í samræmi við framangreind lög og reglugerð um birtingu niðurstaðna tók Matvælastofnun saman öll gögn um efnagreiningar úr eftirlit árið 2011 og birti á heimasíðu sinni. Hefðu upplýsingar um þetta tiltekna mál birst fyrr hefði málið án efa fengið aðra umjöllun og verður vonandi hægt að tryggja slíka málsmeðferð í framtíðinni. Að mati Matvælastofnunar er einnig vert að skoða ábyrgð áburðarfyrirtækja á eigin vöru og hvort samræma eigi hana þeim skyldum sem fóður- og matvælafyrirtæki bera í þeim efnum, s.s. varðandi upplýsingagjöf til neytenda og innköllun á vörum sem geta verið hættulegar heilsu dýra og manna.


Að lokum ber að leiðrétta rangan fréttaflutning í þá veru að Matvælastofnun hafi beitt mismunandi þvingunarúrræðum þegar áburður mælist með of háu efnainnihaldi eða þegar efnasamsetning er ekki í samræmi við veittar upplýsingar. Í þeim fáu tilvikum þegar kadmíum hefur mælst yfir mörkum á undanförnum tíu árum hefur varan verið afskráð og markaðssetning ekki leyfð að nýja fyrr en að undangengnum sýnatökum og mælingum.Getum við bætt efni síðunnar?