Fara í efni

Uppfært hættustig vegna eldsumbrota á Reykjanesi - tilmæli til umráðamanna dýra

Almannavarnir hafa uppfært almannavarnarstig af óvissustigi upp á hættustig vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi. Veðurstofa Íslands metur sem svo að líkur séu á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu dögum. https://vedur.is/um-vi/frettir/jardhraeringar-grindavik

Matvælastofnun beinir því eindregnum tilmælum til allra dýraeiganda á svæðinu að koma dýrum sínum þegar í stað á örugga staði. Hættumat veðurstofunnar fjallar um tvær meginsviðsmyndir:

Sviðsmynd 1: Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks. Mjög stuttur fyrirvari yrði á gosinu (innan við 30 mínútur). Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1.5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2: Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli. Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Nokkur atriði í þessari sviðsmynd eru sérstakt áhyggjuatriði:

  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1.5 klukkustund og hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkutímum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Einnig er ekki hægt að útiloka möguleika á að gossprunga opnist innan Grindavíkur. Líkur á gosopnun innan Grindavíkur eru metnar „töluverðar“ í núverandi hættumati sem gildir að öllu óbreyttu til 6. ágúst.

Stofnunin hefur ítrekað beint tilmælum til búfjáreigenda á svæðinu að flytja dýr sín ekki aftur til bæjarins vegna viðvarandi hættu á endurteknum eldsumbrotum. Umráðamenn dýra eru ábyrgir fyrir velferð sinna dýra, skv. lögum um velferð dýra https://www.althingi.is/lagas/154b/2013055.html.


Getum við bætt efni síðunnar?