Fara í efni

Uppfærsla á frétt um magakveisu með nýjum upplýsingum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Á síðustu tveimur vikum hefur komið upp faraldur magakveisu meðal starfsmanna Háaleitisskóla - Hvassaleiti í Reykjavík og Hörðuvallaskóla í Kópavogi. Stór hluti starfsmanna í þessum tveimur skólum hefur veikst með magaóþægindum og niðurgangi sem varir í nokkra daga. Ekki hefur borið á ofangreindum veikindum meðal starfsmanna annarra skóla á höfuðborgarsvæðinu og þeir starfsmenn sem hafa veikst virðast ekki hafa smitað aðra í neinum mæli.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerði faraldsfræðilega rannsókn til að finna hvort að tengsl væri á milli neyslu matvæla í Hvassaleitisskóla og veikinda. Niðurstöður rannsóknar sýndu að sterk tengsl voru við neyslu salats sem var óþvegið og því sennilegt að um matarsýkingu sé að ræða. Salat úr sömu framleiðslulotu hafði líka verið borið fram um svipað leyti í Hörðuvallaskóla. Rannsóknir á óþvegnu salati frá sama framleiðanda og það sem boðið var upp á í báðum skólunum hafa leitt í ljós hugsanlegan sýkingarvald, bakteríuna Aeromonas hydrophila sem þekkt er að getur valdið veikindum eins og hér um ræðir. Rannsóknir á saursýnum frá veikum einstaklingum eru enn í gangi.

Veikum starfsmönnum er ráðlagt að halda sig heima meðan niðurgangurinn gengur yfir og að auki í einn dag til viðbótar. Veikir starfsmenn sem að auki hafa lifrarsjúkdóm eða annað ónæmisbælandi ástand ættu að leita til læknis til að fá sýklalyf sem líklegt er að vinni á Aeromonas. Ef einkenni vara lengur en viku eða alvarleg veikindi koma upp getur verið ástæða til að jafnvel annars hraustir einstaklingar fái meðferð.

Hvatt er til almenns hreinlætis og handþvottar og að farið sé eftir leiðbeiningum um meðferð matvæla. Ekki er talin hætta á að magakveisan breiðist út til nemenda ef venjulegt hreinlæti er virt og því ekki ástæða til að stöðva starfsemi skólanna á grunni sýkingarhættu.

Matvælastofnun vill vekja athygli á eftirfarandi útgefnum leiðbeiningum.

Ítarefni

Frétt uppfærð 28.08.17 kl. 17:43


Getum við bætt efni síðunnar?