Fara í efni

Til hrossaræktenda

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Á vegum Tilraunastöðvarinnar á Keldum og Matvælastofnunar (MAST) er nú að fara af stað rannsókn á tíðni og orsökum folaldadauða hér á landi. Efniviðurinn verður einnig nýttur til rannsókna á sviði líffæra- og þroskunarfræði.

Rannsóknin byggir á krufningu folalda sem drepast eða eru aflífuð fyrir 6 mánaða aldur og spurningalistum sem verða lagðir fyrir eigendur. Rannsóknin er hrossaeigendum að kostnaðarlausu að öðru leyti en því að þeir greiða sjálfir flutningskostnað.

Afar mikilvægt er að sem flest þeirra folalda sem drepast í vor og fram á haust komi til krufningar svo fljótt sem auðið er. Eigendur eru beðnir um að  láta Tilraunastöðina á Keldum vita af sendingunni í síma 585-5100 (Einar Jörundsson eða Ólöf G. Sigurðardóttir) og/eða í tölvupósti (meinas@listar.hi.is  eða syni@keldur.is).

Merkja ber sendingu á eftirfarandi hátt:

Meinafræðideild

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Keldnavegi 3

112 Reykjavík

Tíðni og orsakir folaldadauða hafa lítið verið rannsakaðar hér á landi. Þrátt fyrir að ekki virðist um stórfellt vandamál að ræða á landsvísu, hafa komið fram vísbendingar um að ýmsir þættir í umhverfi hrossa hér á landi geti aukið verulega staðbundna hættu á folaldadauða. Þar sem verðmæti einstakra folalda getur verið mjög mikið hefur tiltölulega lág dánartíðni folalda umtalsverð efnahagsleg áhrif á einstaka ræktendur og jafnvel greinina í heild.

Nauðsynlegt er að greina þá áhættuþætti sem liggja að baki svo hægt verði að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og tryggja rétta meðhöndlun. Þá er gagnlegt að hafa upplýsingar um tíðni folaldadauða við eðlilegar aðstæður, þ.e. þegar hvorki geysa náttúruhamfarir né smitsjúkdómar í landinu.  Krufningar á folöldum í tengslum við smitandi hósta árið 2010 bentu til að selenskortur hafi verið ein helsta orsök folaldadauða það ár, en áríðandi er að afla frekari upplýsinga um þá áhættu á landsvísu og við mismunandi búskaparlag. Meðal smitefna sem hafa komið við sögu undanfarin ár má nefna tiltekna stofna streptókokka, listeríu (Hvanneyrarveiki) og salmonellu. Þá hafa verið uppi tilgátur um veirusýkingar sem mögulega orsök alvarlegs niðurgangs í folöldum sem getur leitt til dauða. Þetta á einkum við á sæðingastöðvum og öðrum ræktunarstöðvum þar sem stórir hópar folaldshryssna koma saman. Smitsjúkdómar af völdum sníkjudýra eru ennfremur möguleg orsök folaldadauða. Þá er ótalið að nokkuð virðist vera um fæðingargalla af ýmsu tagi sem ekki hefur verið lýst nákvæmlega.


Getum við bætt efni síðunnar?