Fara í efni

Takmörkun á innflutningi matvæla vegna súdan litarefna

Auglýsing nr. 772/2005 sem nú er í gildi takmarkar innflutning á:


  • þurrkuðum, gróf- eða fínmöluðum sterkum chílepipar af ættinni Capsicum og afurðum úr honum sem falla undir tollskrárnúmerin 0904.1200 og/eða 0904.2009;

  • karrí og afurðum úr því sem falla undir tollskrárnúmerið 0910.5000.

  • túrmerík sem fellur undir tollskrárnúmerið 0910.3000,

  • pálmolíu sem fellur undir tollskrárnúmerin 1511.1001 og/eða 1511.1009.


Ástæðan eru endurtekin tilvik þar sem matvælaeftirlit Evrópulanda hafa greint ólögleg Sudan-litarefni í ofangreindum vörum:


a)     Sudan I (CAS númer 842-07-9);

b)      Sudan II (CAS númer 3118-97-6);

c)      Sudan III (CAS númer 85-86-9);

d)      Sudan IV / Skarlatsrauður (CAS númer 85-83-6).


Ofangreindar vörur eru notaðar sem hráefni í önnur matvæli.  Ógerlegt er að setja sértækar takmarkanir á innflutning þessara matvæla enda um gríðarlegan fjölda vörutegunda að ræða, sem gætu innihaldið þessi hráefni.  Í gegnum RASFF, (Rapid Alert System for Food and Feed) evrópska viðvörunarkerfið fyrir matvæli og fóður sem Umhverfisstofnun er tengiliður við, berast reglulega tilkynningar um að notuð séu hráefni í ýmsa þurrvöru og tilbúin matvæli sem innihalda súdan litarefnin.  Einkum er hér um að ræða kryddblöndur  ( þ.a.m. karrý, indverskar kryddblöndur; tandoori, graam masala  ), chutney, relish, chílesósur, bragðsterkar tómatsósur, pastasósur, pestosósur, salatdressing, tacosósur, Chíle con carni, niðurlagðan fisk með chílepipar, og rautt spagetti/pasta.


Til að stemma stigu við notkun þessara ólöglegu litarefna er nauðsynlegt að allir aðilar vinni saman.  Innflytjendur og innlendir framleiðendur verða að vera gagnrýnir á hvaða hráefni og matvæli þeir flytja inn eða framleiða.  Sjálfsagt er að óska eftir staðfestingu (s.s. skrifleg yfirlýsingu eða rannsóknavottorð) birgja á því hvort umræddar vörur innihaldi ekki súdan litarefni eða önnur ólögleg efni.  Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga munu nú sem fyrr gera sitt besta til að tryggja íslenskum neytendum örugg matvæli.  Með samstilltu átaki næst árangur.Getum við bætt efni síðunnar?