Fara í efni

Tafarlausar vörslusviptingar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur nýverið tekið dýr úr vörslum umráðamanna þar sem aðbúnaður stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru skv. lögum um velferð dýra nr. 55/2013 og annars vegar reglugerðar nr. 910/2014 um velferð hrossa og hins vegar reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra.

Í öðru málinu var um að ræða tvær hryssur, önnur með folaldi og hin fylfull, sem haldnar voru í gerði án aðgangs að beit og tryggri brynningu. Kröfum um úrbætur hafði ekki verið sinnt.

Þá var hvolpur tekinn af umráðamanni, eftir að ábending barst frá lögreglu um hvolp sem skilinn hafði verið eftir einn heima í lengri tíma við óviðunandi aðstæður.

Í báðum tilfellum var um að ræða tafarlausa vörslusviptingu þar sem úrbætur þoldu ekki bið.

Samkvæmt lögum um velferð dýra er skylt að fara vel með dýr og ber umráðamaður ábyrgð á því að annast sé um dýr í samræmi við lögin og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra.

Getum við bætt efni síðunnar?