Fara í efni

Synjun á innflutningi hreindýrakjöts frá Grænlandi staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í desember 2016 synjaði Matvælastofnun fyrirtækinu Esju gæðafæði ehf um innflutning á hreindýrakjöti frá Grænlandi.  Fyrirtækið var ósátt við synjunina og kærði hana til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.  Ráðuneytið hefur nú nýlega staðfest synjunina og mælt fyrir um förgun vörunnar sem beðið hefur ótollafgreidd í vörugeymslu í Reykjavík.

Ástæða synjunarinnar var að matvælin voru vanmerkt. Grænland er utan evrópska efnahagssvæðisins (EES) og því gildir um þennan innflutning reglugerð um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan EES sem sett er m.a. með stoð í lögum um matvæli og lögum um dýrasjúkdóma.  Enn fremur gildir um þetta efni Evrópureglugerð (853/2004/EB) sem hefur verið innleidd hér á þessu sviði.  Sú reglugerð mælir fyrir um hvernig standa skuli að merkingu afurða sem koma frá þriðju ríkjum og eiga að fara á markað í aðildarríkjunum.

Samkvæmt þessari reglugerð skal koma fram samþykkisnúmer hinnar grænlensku starfsstöðvar á afurðunum á svonefndu auðkennismerki.  Tilgangur auðkennismerkis er annars vegar að tryggja rekjanleika vörunnar og veita upplýsingar um uppruna hennar og hins vegar að staðfesta að viðkomandi starfsstöð hafi gilt vinnslu- eða starfsleyfi.  Slíkt leyfi á að tryggja tiltekið heilbrigðisástand starfsstöðvarinnar þegar varan yfirgefur starfsstöðina.  Skal auðkennismerkið sett á vöruna áður en hún er send frá starfstöðinni.   Fyrir lá að auðkennismerkið var ekki auðgreinanlegt á umræddu hreindýrakjöti.

Synjun Matvælastofnunar var því staðfest og skal vörunni fargað eða endursend til Grænlands.  Ráðuneytið tekur sérstaklega fram í úrskurði sínum að Matvælastofnun hafi fylgt helstu reglum stjórnsýsluréttarins við afgreiðslu málsins.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?