Fara í efni

Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería á Íslandi 2024

Sameiginleg ársskýrsla Matvælastofnunar og Embætti landlæknis um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum fyrir árið 2024 kom út í vikunni. Skýrslan er einnig unnin í samstarfi við Landspítala, Lyfjastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Umhverfisstofnun.

Notkun sýklalyfja

Heildarsala sýklalyfja fyrir dýr hérlendis árið 2024 jókst um 26% milli ára. Ástæða þessarar aukningar er sýklalyfjagjöf í landeldi á bleikju gegn kýlaveikibróður sem kom upp haustið 2021 og hefur þurft að fylgja sýkingunni eftir með áframhaldandi sýklalyfjagjöf. Sé notkun í bleikjueldi undanskilin hefur sýklalyfjanotkun hjá dýrum lítið breyst síðustu ár og Ísland er áfram meðal þeirra Evrópulanda sem minnst nota af sýklalyfjum fyrir dýr.

Lyf í flokki beta-laktamasanæm penicillín voru hlutfallslega stærsti undirflokkur sýklalyfja með 30% af heildarsölu árið 2024. Sýklalyf sem notuð voru í meðhöndlun vegna kýlaveikibróður voru lyf í flokki annarra sýklalyfja (19% af heildarsölu) og í flokki tetracýklínsambanda (23% af heildarsölu), sem skýrir hlutfallslega aukningu í þeim flokkum miðað við fyrri ár.

Árið 2024 var notkun sýklalyfja hjá fólki svipuð og undanfarin ár. Um þriðjungur landsmanna fékk að minnsta kosti eina sýklalyfjaávísun á árinu. Flestum sýklalyfjum var ávísað utan sjúkrahúsa, aðallega af heimilislæknum. Penisillín er enn mest ávísaði sýklalyfjaflokkurinn en doxycýklín mest notaða einstaka sýklalyfið mælt í heildarfjölda dagskammta. Ísland sker sig úr í Evrópu fyrir litla notkun breiðvirkra sýklalyfja sem er jákvætt þar sem breiðvirk sýklalyf stuðla frekar að auknu sýklalyfjaónæmi.

Sýklalyfjaónæmi

Á árinu 2024 var framkvæmd sýnataka í kjúklingum í samræmi við reglugerð um vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum og matvælum:

  • Sjö Salmonella stofnar úr hálsaskinnssýnum við slátrun kjúklinga voru næmisprófaðir: Sex S. Typhimurium (ónæmir fyrir ampicillíni og teracýklíni) og einn S. Brandenburg (ónæmur fyrir súlfametoxaxóli og trímetóprími). Auk þess voru tveir S. Agona stofnar úr sokkasýnum í kjúklingaeldi prófaðir og reyndust báðir fullnæmir. Niðurstöðurnar sýna töluverða aukningu í ónæmi samanborið við síðustu vöktunarlotu fyrir tveimur árum, þegar aðeins einn af tólf stofnum reyndist ónæmur.
  • Fjórir Campylobacter jejuni stofnar úr kjúklingum voru næmisprófaðir, þrír úr saursýnum í eldi og einn úr botnlangasýni við slátrun, og reyndust þeir allir fullnæmir. Hingað til hafa allir næmisprófaðir Campylobacter stofnar úr kjúklingum verið af sermisgerðinni C. jejuni. Á árinu fannst þó einn C. coli stofn í saursýni í eldi sem reyndist ónæmur fyrir ertapenem; þetta er í fyrsta sinn sem slíkt ónæmi greinist hér á landi.
  • Alls voru 85 E. coli bendibakteríustofnar úr kjúklingabotnlöngum næmisprófaðir og reyndust 15 þeirra (17,6%) ónæmir fyrir einu eða fleiri sýklalyfjum, þar af tveir fjölónæmir. Þetta er sambærilegt við fyrri ár í kjúklingabotnlöngum.
  • Skimað var fyrir ESBL-/AmpC-/karbapenemasa myndandi E. coli í 148 sýnum úr kjúklingabotnlöngum og 135 sýnum úr kjúklingakjöti. Öll sýnin reyndust neikvæð, í samræmi við fyrri niðurstöður í kjúklingum og kjúklingakjöti.

Sýklalyfjaónæmi í bakteríum hjá fólki hér á landi er almennt lítið miðað við mörg ríki ESB/EES, þó aukning hafi orðið á vissum gerðum ónæmra sýkla. Sérstakar áhyggjur vekur aukning á karbapenemasa-myndandi Enterobacterales (CPE) á milli ára, en 18 einstaklingar greindust með CPE í fyrsta sinn árið 2024, sem er metfjöldi. Einnig hefur ónæmi gegn cíprófloxacíni hjá innlendum Campylobacter stofnum aukist síðustu ár.

Ein heilsa og aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn sýklalyfjaónæmi

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi alþjóðlegt vandamál og ein stærsta heilbrigðisógn sem heimurinn stendur frammi fyrir. „Ein heilsa“ er hugtak sem nær yfir heilbrigði fólks, dýra og umhverfis og á vel við í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi þar sem ónæmir sýklar berast greiðlega á milli manna, dýra/matvæla og umhverfis.

Hérlendis hafa stjórnvöld ákveðið að styrkja þverfaglega samvinnu um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi og sumarið 2024 undirrituðu þrír ráðherrar opinbera aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi. Áætlunin sem byggir á Einnar heilsu nálgun nær til áranna 2025-2029 og inniheldur sex aðgerðir og fjölmörg verkefni.

Framtíðin

Almennt er staðan hvað varðar notkun sýklalyfja og útbreiðslu sýklalyfjaónæmis góð hérlendis en áframhaldandi vöktun og ábyrg notkun sýklalyfja eru nauðsynleg til að viðhalda þeim árangri. Miklar vonir eru bundnar við aðgerðaáætlun stjórnvalda og áframhaldandi stuðning við framkvæmd aðgerða gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

 

Sjá nánar:

Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2024

Aðgerðaáætlun gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis 2025-2029


Getum við bætt efni síðunnar?