Fara í efni

Svínakjöt - eftirlitsverkefni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsverkefni Matvælastofnunar og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga vegna salmonellu í svínakjöti hófst í byrjun júní. Taka á 100 sýni af svínakjöti á markaði.  Á síðastliðnu ári og fyrri hluta þessa árs hefur salmonella greinst í auknum mæli á svínabúum og í stroksýnum teknum í sláturhúsum og er tilgangur eftirlitsverkefnisins að kanna hvort eitthvað sé um salmonellu í svínakjöti á markaði.

Um miðjan júní hafa verið tekin 59 sýni og hefur Salmonella typhimurium greinst í þremur sýnum af grísagúllasi á markaði.  Sýnin 3 eru frá Ferskum kjötvörum og eru merkt með pökkunardegi 5.6.2009 og síðasta neysludegi 11.6.2009 og hefur framleiðandinn sent út fréttatilkynningu þar sem neytendur er hvattir til að skila vörunni hafi hún verið fryst.     

MAST vill benda neytendum á að þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir og öflugt eftirlit er aldrei hægt að koma algjörlega í veg fyrir salmonellu í kjöti. Neytendur þurfa því ætíð að líta svo á að hrátt kjöt geti verið mengað af örverum. Ávallt ber því að meðhöndla hrátt kjöt m.t.t. þessa og gæta fyllsta hreinlætis við matreiðslu, koma í veg fyrir krosssmit úr hráu kjöti í matvæli sem eru tilbúin til neyslu og huga að því að kjötið sé nægilega vel eldað/hitað. Neytendur ættu því að hafa eftirfarandi í huga við matreiðslu á kjöti. 

Uppþíðing / kæling

  • Ávallt skal þíða kjöt í kæliskáp til að koma í veg fyrir  fjölgun sjúkdómsvaldandi örvera (ef þær eru til staðar).

  • Þegar kjöt  er þýtt upp eða geymt í kæliskáp er nauðsynlegt að tryggja að safi úr því berist ekki í önnur matvæli í kæliskápnum.


Krossmengun

  • Þvoið hendur áður en farið er að meðhöndla matvæli og á milli vinnslu mismunandi rétta og fyrir neyslu.

  • Gæta skal þess að safi frá kjöti leki ekki á önnur matvæli.
  • Þrífa skal öll áhöld sem notuð eru við eldamennsku á kjöti áður en þau eru notuð fyrir soðið kjöt og önnur matvæli.


Hitun

  • Mjög mikilvægt að gegnhita kjöt við matreiðslu, en þá er kjötsafinn í þykkasta bitanum orðinn tær og steikingahitamælir sýnir a.m.k. 72°C.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?