Fara í efni

Sumarexem í hrossum - staða rannsókna

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.Síðastliðið sumar var haldinn vinnufundur vísindamanna sem stunda rannsóknir á sumarexemi í hrossum á Hólum í Hjaltadal. Fulltrúar frá flestum rannsóknahópum sem starfa á þessu sviði í Evrópu og Bandaríkjunum kynntu rannsóknir sínar fjölluðu um túlkun niðurstaðna og lögðu á ráðin um næstu skref þar sem tækniframfarir og ný þekking á sviði ónæmisfræði varða leiðina. Mikil áhersla er nú lögð á rannsóknir á sumarexemi í íslenska hestinum enda er sjúkdómurinn hvergi eins alvarlegur og algengur og í útfluttum íslenskum hrossum þó hann þekkist í öllum hrossakynjum heims.

Flókið samspil erfða- og umhverfisþátta stjórna viðbrögðum ónæmiskerfisins við ofnæmisvöldum. Í sumarexemi er talið að ofnæmisvaldarnir séu prótein í munnvatni mýflugna af tegundinni Culicoides (smámý).  Við bit smámýsins mynda hestar sem fá sumarexem svokölluð IgE mótefni sem leiðir til ofnæmis af gerð I.  Þessi mýflugnategund þrífst ekki á Íslandi sem skýrir hvers vegna sjúkdómurinn er óþekktur hér á landi. 

Há tíðni í útfluttum íslenskum hrossum

Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa leitt í ljós að tveimur árum eftir útflutning hefur um helmingur þeirra fengið sumarexem ef ekkert er gert til varnar.  Til samanburðar er tíðni sjúkdómsins í íslenskum hestum fæddum í Þýskalandi um 5%. Ekkert bendir til að íslenska hrossakyninu sem slíku sé hættara við sjúkdómnum en öðrum hestakynjum, heldur má rekja háa tíðni í útfluttum íslenskum hestum til mikilla umhverfisbreytinga við útflutning.

Mismunandi ónæmissvörum milli íslenskra hesta sem fæddir eru hér og í Evrópu


Þar skiptir mestu máli að hross sem fædd eru í Evrópu verða fyrir fyrstu mýflugnabitunum fljótlega eftir köstun þegar ónæmiskerfið er að aðlagast umhverfinu og framleiðsla á eigin IgE er ekki hafin. Útfluttu hrossin eru eldri þegar þau kynnast ofnæmisvaldinum og aðlögunarhæfni ónæmiskerfisins minni. Fleiri umhverfisþættir virðast hafa áhrif. Nýleg rannsókn sýnir að þrátt fyrir að sumarexem sé óþekktur sjúkdómur á Íslandi hafa hrossin hér óvenju mikið IgE í blóðinu miðað við íslensk hross í Evrópu sem ekki eru með sumarexem. Ástæðan  er væntanlega sú að tiltölulega mikið er um ormasýkingar í hrossum hér á landi sem einnig örva IgE mótefnasvörun. Á sama tíma er sá hluti ónæmiskerfisins sem bregst við veirusýkingum nánast í dvala en veirusýkingar væru fremur til þess fallnar að draga úr hættunni á ofnæmi. Því hefur verið sett fram sú kenning að ormasýkingar eigi þátt í að móta viðbrögð ónæmiskerfisins þegar hross á fullorðinsaldri verða fyrir biti smámýs. Þessi þekking gefur tilefni til bjartsýni á að hægt verði að stjórna þessum ferlum og  koma þannig í veg fyrir ofnæmi.

Nýir möguleikar á meðhöndlun

Einangrun ofnæmisvaka í munnvatni smámýs er forsenda hnitmiðaðra ónæmisaðgerða til að fyrirbyggja eða lækna sumarexem. Verkefnið er flókið og erfitt en með auknum krafti í rannsóknum á seinustu árum hefur þokast í rétta átt. Eitt slíkt prótein er nú þekkt og fleiri í skoðun. Fljótlega verður hægt að nota þau prótein til tilrauna á afnæmingu íslenskra hesta erlendis. Það er aðferð sem hefur lengi verið notuð til lækninga á ákveðnum tegundum ofnæmis í fólki en hefur lítið verið reynd í hrossum. Samtímis verður haldið áfram að þróa aðferðir til að kynna ofnæmisvakana fyrir ónæmiskerfinu með bólusetningu. Þrátt fyrir mörg ljón á þeim vegi voru þátttakendur almennt sammála um að bólusetning með erfðaefni eða próteinum skilgreindra ofnæmisvaka sé varanlegasta leiðin til að fyrirbyggja sumarexem í útfluttum hrossum. Vonir standa til að innan fárra ára verði bólusettir hestar fluttir út til að sannreyna að sú aðferð veiti þeim vörn gegn sumarexemi. Það yrði stærsta og kostnaðarsamasta rannsóknaverkefni sem íslensk hrossarækt hefur staðið frammi fyrir og nauðsynlegt að huga að fjármögnun þess nú þegar.Algeng sjón á útfluttum íslenskum hestum - exemteppi er öflugasta vörnin í dag gegn sumarexemi


Erfðir

Sýnt hefur verið fram á arfgengi sumarexems, bæði í íslenskum hestum erlendis og í öðrum hestakynjum. Í um 1200 hesta úrtaki íslenskra hesta sem fæddir voru í þýskalandi var tíðni sumarexems 12,2% ef báðir foreldrarnir voru með sjúkdóminn, 6,5% ef annað foreldra var með sjúkdóminn og 2,9% ef hvorugt foreldranna hafði greinst með sumarexem. Áhrif feðra á tíðni sjúkdómsins voru þó aðeins marktæk ef faðirinn var fæddur utan Íslands.  Ekki var heldur séð að erfðir hafi áhrif á tíðni sjúkdómsins í útfluttum íslenskum hestum og undirstrikar sú niðurstaða að sjúkdómsferlillinn er mismunandi milli þessara hópa eins og áður hefur verið getið. Þrátt fyrir mikil áhrif umhverfisbreytinga á tíðni sjúkdómsins í útfluttum hrossum stendur eftir spurningin um hvers vegna þau fái ekki öll sumarexem og hvort þar liggi erfðaáhrif að baki.

Ný og öflug verkfæri til rannsókna á arfgengum sjúkdómum hafa skapast við kortlagningu á erfðaefni hestsins. Til að nýta slík verkfæri þarf að byggja upp stóra gagnagrunna sem tengja saman ættfræði og sjúkdómsgreiningar auk lífsýnabanka. Allt er þetta mögulegt, m.a. vegna hins góða ættfræðigrunns sem til er nú þegar, Veraldarfengs Bændasamtaka Íslands (WF). Kerfisbundin lífsýnataka úr útfluttum hrossum samhliða þróun heilsukorta innan WF eru eðlilega næstu skref í rannsóknum á erfðum sumarexems. Með tímanum gæti þannig byggst upp gagnagrunnur sem væri einstakur á heimsvísu og gæti veitt svör við áleitnum spurningum um samspil erfða og umhverfis á ónæmiskerfið.


Aðalstyrktaraðili verkefnisins var Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Verkefnið var einnig styrkt af RANNÍS og Rannsóknarsjóð Háskóla Íslands.


Sjá einnig:

    Vísindagrein um niðurstöður vinnufundarins - á ensku
Getum við bætt efni síðunnar?