Fara í efni

Styrkir vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á lögbýlum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Veittir eru styrkir úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna vatnveituframkvæmda á lögbýlum í dreifbýli samkvæmt reglugerð innanríkisráðuneytisins nr. 180/2016.

Heimilt er að greiða árlega framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á vegum eigenda lögbýla þar sem svo háttar til að hagkvæmara er að mati sveitarstjórnar að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004.

Matvælastofnun annast úthlutun framlaga. Matvælastofnun skal fyrir 1. maí ljúka yfirferð umsókna og leggja mat á hvort þær uppfylli skilyrði þess að vera styrkhæfar. Matvælastofnun tilkynnir umsækjendum um niðurstöðu matsins og setur jafnframt þau skilyrði um tæknilegan frágang vatnsveitu sem hún telur nauðsynleg.

Rafrænar umsóknir skal fylla út á Bændatorginu á vef Matvælastofnunar eigi síðar en 1. mars 2017. Með umsókn skal fylgja mat búnaðarsambands á þörf býlisins fyrir viðkomandi framkvæmd og staðfest kostnaðar- og framkvæmdaáætlun af úttektarmanni búnaðarsambands á svæðinu. Aðeins er tekið á móti rafrænum umsóknum í gegnum Bændatorgið.

Hámarksframlag vegna einstakra framkvæmda má nema allt að 44% stofnkostnaðar við vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa, þ.e. kostnaðar við vatnsupptöku, þar með talin borun eftir vatni og dælur, vatnsgeyma og leiðslu frá vatnsbóli að bæjarvegg. Ennfremur telst til stofnkostnaðar þóknun fyrir úttekt, sbr. 5. gr.

Úttektir á framkvæmdum umsækjenda, staðfestar af úttektaraðila Matvælastofnunar, skulu berast Matvælastofnun fyrir 20. nóvember á á framkvæmdaári. Framkvæmdum skal lokið áður en úttekt fer fram. Matvælastofnun gerir í lok hvers árs tillögur til ráðherra um úthlutun framlaga vegna einstakra fram­kvæmda á því ári. Ráðgjafarnefnd innanríkisráðherra skal gefa ráðherra umsögn um tillögur Matvæla­stofnunar áður en tekin er ákvörðun um úthlutun.

Matvælastofnun annast greiðslur framlaga til framkvæmdaaðila. Framlög vegna framkvæmda á næst­liðnu ári skulu greidd eigi síðar en 15. febrúar ár hvert.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?