Stjórnvaldsákvarðanir og aðgerðir Matvælastofnunar í dýravelferðarmálum í febrúar 2025
Aðgerðir MAST vegna ítrekaðra brota á velferð dýra
Matvælastofnun hefur lokið aðgerðum á sauðfjárbúi í Borgarfirði vegna ítrekaðra brota á velferð dýra og ábúendur höfðu endurtekið ekki orðið við kröfum um úrbætur með fullnægjandi hætti.
Stofnunin gerði kröfu um verulega fækkun á fé á bænum niður í 50 kindur, sem ábúendur samþykktu með skriflegum hætti. Ábúendum bauðst að færa til slátrunar uppgefinn fjölda fjár innan ákveðins tímaramma, en þegar það gekk ekki að fullu eftir, greip stofnunin til aðgerða. Áhersla var lögð á að ljúka aðgerðum áður en nær liði að sauðburði, sem væntanlegt var að hæfist seinnihluta aprílmánaðar. Aðbúnaði og umönnun lambfjár á búinu hefur sérstaklega verið ábótavant á þeim viðkvæma tíma búfjárhaldsins.
Aðgerðir gengu vel. Samtals hefur verið fækkað á búinu um rétt tæplega 600 fjár síðan sláturtíð lauk í fyrra haust. Aukið eftirlit verður viðhaft með aðbúnaði og umhirðu á því fé sem ábúendur fengu að halda eftir.
Vörslusvipting á ketti á Vesturlandi
Ábending kom um ófullnægjandi aðbúnað og umhirðu kattar. Við eftirlit kom í ljós að aðbúnaður og umhirða kattarins var óviðunandi og umráðamaður ekki talinn búa yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lög og reglugerðir. Umráðamaður kattarins var því sviptur umráðum hans og kettinum komið til nýrra eiganda.
Vörslusvipting á kettling á Norðurlandi
Ábending kom um að kettlingur væri beittur ofbeldi af nágranna. Ofbeldi sannaðist ekki en við eftirlit kom í ljós að aðbúnaður og umhirða kettlingsins hjá umráðamanni var óviðunandi og hann ekki talinn búa yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lög og reglugerðir. Umráðamaður kettlingsins var sviptur umráðum hans og honum komið komið til nýrra eiganda.