Fara í efni

Stjórnvaldsákvarðanir Matvælastofnunar í janúar 2025 vegna eftirlits með dýravelferð og matvælaframleiðslu

Vanrækt að tryggja nautgripum útivist sumarið 2024. Stjórnvaldssekt lögð á bónda

Skylt er að tryggja nautgripum beit á grónu landi í átta vikur hið minnsta að sumarlagi. Umráðamaður í Norðausturumdæmi vanrækti þetta og var lögð á hann stjórnvaldssekt að upphæð 448.000 kr.

Brot á velferð gæludýrs

Umráðamaður í Suðvesturumdæmi var sviptur umráðum kattar vegna óviðunandi meðferðar á dýrinu.

Brot á velferð nautgripa og sauðfjár

Dagsektir að upphæð 20.000 kr. á dag voru lagðar á bónda á Suðvesturumdæmi vegna óviðunandi velferðar dýra á bænum.

Ákveðið að láta vinna úrbætur á dýravelferð á kostnað umráðamanns

Dýravelferð verulega áfátt á bæ í Norðausturumdæmi. Matvælastofnun réð bústjóra tímabundið á kostnað umráðamanns til að bæta aðbúnað nautgripa og dýravelferð á bænum.

Rekstraraðili sektaður vegna brota á dýravelferð

Fluttir voru 100 sláturgrísir í sláturhús í Suðvesturumdæmi og áttu að dvelja í sláturrétt yfir nótt og vera slátrað morguninn eftir. Þegar til kom reyndist einungis vera pláss fyrir 92 grísi í réttinni þannig að 8 grísir voru skildir eftir í flutningabíl yfir nótt án fóðurs og vatns sem fól í sér brot á lögum og reglugerðum. Lögð var stjórnvaldssekt á rekstraraðila að upphæð 66.000 kr.

Matvælaframleiðsla stöðvuð

Aðili sem hélt nautgripi til kjötframleiðslu sótti um starfsleyfi en fékk synjun þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði sem tilgreind eru í reglugerð. Starfsemin var stöðvuð.


Getum við bætt efni síðunnar?