Fara í efni

Stjórnvaldsákvarðanir Matvælastofnunar i dýravelferðarmálum o.fl. í apríl 2025

Stjórnvaldssekt í fiskeldi

Lögð var stjórnvaldssekt að upphæð 500.000 kr. á fiskeldisfyrirtæki í suðausturumdæmi vegna brota á lögum um dýravelferð.

Fyrirtækið vanrækti að fjarlægja sjúka eða slasaða fiska úr eldiskvíum og aflífa þá eins og skylt er.

Vörslusvipting á köttum

Kattareigandi í suðvesturumdæmi skildi læðu með kettlinga eina eftir á heimili sínu án fóðurs og vatns. Að auki er bannað að skilja kettlinga yngri en 16 vikna eftir eina og án eftirlits lengur en sex klst. í senn.

Kattareigandinn var sviptur vörslum dýranna og þeim komið í fóstur.

Úrbætur á kostnað bónda

Sauðfjárbóndi í norðausturumdæmi vanfóðraði kindur og hafði of mikinn þéttleika á þeim.

Þar sem hann taldist ekki ráða einn við búið var honum tilkynnt að MAST myndi ráða vinnumann út sauðburðinn honum til aðstoðar. Þetta yrði gert á kostnað bóndans.

Bóndi sviptur mjólkursöluleyfi og beittur dagsektum

Bóndi í norðvesturumdæmi var sviptur mjólkursöluleyfi 4. apríl en veitt það að nýju 10. apríl eftir endurbætur.

Lagðar voru dagsektir á bóndann að upphæð 10.000 kr. á dag til að knýja fram bætta hópaskiptingu, fóðrun, hreinleika og brynningu í uppeldi nautgripa og einnig til að draga úr þéttleika.

Rekstur hestaleigu stöðvaður

Rekstur hestaleigu í suðausturumdæmi var stöðvaður vegna brota á velferð hrossanna.

Gerð var krafa um að horuðustu hestarnir yrðu aflífaðir innan viku eða ráðstafað til ábyrgra aðila sem Matvælastofnun viðurkenndi. Öðrum hrossum yrði ráðstafað til annarra innan 4 vikna.

Dagsektir ákveðnar til að knýja fram úrbætur í dýravelferð

Nautgripabóndi í norðausturumdæmi braut á velferð dýranna. Fóðrun og brynningu ábótavant og einnig skjóli.

Lagðar voru á hann dagsektir að upphæð 10.000 kr. á dag til að knýja á um úrbætur.


Getum við bætt efni síðunnar?