Fara í efni

Starfsreglur fyrir hestaleigur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 7. apríl sl boðuðu Matvælastofnun og Félag hrossabænda forsvarsmenn hestaleiga til vinnufundar um sameiginlegar starfsreglur fyrir hestaleigur.

Mikil aukning er í hestatengdri ferðaþjónustu um þessar mundir sem bæði kemur fram í að hestaleigum fjölgar og starfsemi þeirra vex. Þessi þróun felur í sér margvíslegar áskoranir, þ.m.t. aukna hættu á að hestar verði notaðir of mikið yfir skemmri eða lengri tímabil. Til að tryggja velferð hesta sem notaðir eru í ferðaþjónustu þarf að innleiða samræmdar starfsreglur (gæðastýringu) innan greinarinnar sem byggja á dagbókarfærslum um notkun hestanna eins og kveðið er á um í reglugerð um velferð hrossa. Holdastigun gegnir mikilvægu hlutverki við mat á mögulegri ofnotkun þó fleiri skoðunaratriði komi þar við sögu. Óheimilt er að nota hesta sem ekki ná reiðhestsholdum (holdastig 3) samkvæmt holdastigunarkvarða sem fylgir reglugerðinni. Þá skulu hestarnir að sjálfsögðu uppfylla almennar kröfur um heilbrigði.

Hestaleigur þurfa að axla aukna ábyrgð á smitvörnum og senda öllum viðskiptavinum sínum bækling um smitvarnir á rafrænu formi við bókanir ferða. Ennfremur þarf að ganga úr skugga um að reglunum hafi verið fylgt þegar ferðamenn koma á hestaleigur og aðra ferðaþjónustubæi. Rafrænn bæklingur er aðgengilegur á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is undir flipanum hestamenn. Öll fyrirtæki í hestatengdri ferðaþjónustu eru hvött til að hafa þennan bækling á áberandi stað á heimasíðum sínum en einnig er hægt að panta prentaðan bækling hjá stofnuninni.

Félag hrossabænda hefur nú tekið frumkvæði að þvístofna vinnuhóp til að útfæra sameiginlegar starfsreglur fyrir hestaleigur og skylda starfsemi. Þeir sem hafa áhuga á að koma að vinnunni eru beðnir um að hafa samband við Svein Steinarsson í gegnum netfangið sveinnst@bondi.is

Þá skal ítrekað að forsvarsmönnum hestaleiga er nú skylt að tilkynna starfsemina til Matvælastofnunar og hefur frestur til þess verið framlengdur til 4. júní 2016. Tikynningar skulu berast rafrænt á slóðinni: umsokn.mast.is  


Ítarefni



Getum við bætt efni síðunnar?