Fara í efni

Smitsjúkdómurinn hringskyrfi staðfestur á kúabúi í Eyjafirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Hringskyrfi orsakast af húðsvepp sem nefnist Trichophyton verrucosum. Einkenni sjúkdómsins eru hringlaga hárlausir blettir í húð. Smitið berst á milli dýra með beinni snertingu en getur einnig borist með öðrum dýrum, fólki og ýmsu öðru í umhverfi dýranna. Sveppagróin eru mjög harðgerð og geta lifað lengi í umhverfinu.


Í þessu tilfelli sem nú var að greinast var um að ræða einn blett á einum nautgrip sem héraðsdýralæknir og eftirlitsdýralæknir komu auga á í sláturhúsi. Héraðsdýralæknir skoðaði í kjölfarið alla gripi á búinu en fann engin einkenni á öðrum gripum. Hann aflaði einnig faraldsfræðilegra upplýsinga en engin augljós smitleið kom fram í þeim upplýsingum.


Á grundvelli laga um dýrasjúkdóma nr. 25/1993 hefur landbúnaðarráðuneytið gefið út fyrirskipun um aðgerðir og ráðstafanir til að hindra útbreiðslu smitsins, samkvæmt tillögum Landbúnaðarstofnunar.


Varúðarráðstafanirnar fela m.a. í sér aðgerðir til að hindra smitdreifingu, eftirlit með einkennum, þrif og sótthreinsun o.s.frv. Héraðsdýralæknir mun fylgjast náið með búinu og meta hvenær óhætt er að aflétta aðgerðum.


Brýnt er að allir séu vel á verði gagnvart einkennum hringskyrfis og tilkynni héraðsdýralækni án tafar hafi það grun um sjúkdóminn.


Hringskyrfi getur líka borist í fólk. Einkennin eru hringlaga útbrot í húðinni og kláði. Mikilvægt er að fólk leiti til læknis hafi það grun um að það hafi smitast.


Hringskyrfi er sjúkdómur sem aðeins hefur orðið vart í fáein skipti en þá barst smitið á marga bæi þrátt fyrir miklar varúðarráðstafanir. Að lokum tókst þó í öllum tilfellum að útrýma smitinu með róttækum aðgerðum. Góða umfjöllun um þetta er að finna í grein eftir Pál Agnar Pálsson í Dýralæknatalinu, sem DÍ gaf út arið 2004.


Sjúkdómurinn er landlægur í flestum löndum í heiminum og veldur töluverðum skaða. Norðmenn hófu umfangsmikla útrýmingarherferð gegn hringskyrfi fyrir nokkrum árum. Árangur hennar hefur verið góður en aðgerðirnar mjög kostnaðarsamar.


Landbúnaðarstofnun leggur mikla áherslu á að koma í veg fyrir dreifingu sjúkdómsins hér á landi og útrýma honum fljótt.


 
Hringskyrfi á nautgripi
 
Hringskyrfi á handlegg

Getum við bætt efni síðunnar?