Fara í efni

Smitandi barkabólga í kúm

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í síðustu viku bárust svör við rannsókn á sýnum sem tekin voru samkvæmt áætlun Matvælastofnunar um skimun vegna smitsjúkdóma í nautgripum. Sýnin voru tekin  á búum um allt land sem valin eru samkvæmt tilviljunarkenndu úrtaki. Sýni frá Egilsstaðabúinu á Egilsstöðum reyndist vera jákvætt vegna sjúkdómsins smitandi barkabólga/fósturlát í kúm. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fyrir fólk og smit berst ekki með afurðum. Um leið og niðurstöður lágu fyrir hafði Matvælastofnun samband við eiganda búsins og í ljós kom í samtali við hann og dýralækni búsins að engin einkenni hafa verið um sjúkdóminn og heilsufar kúnna hafi  verið gott. Jafnframt var mælt fyrir um varúðarráðstafanir til að hindra útbreiðslu, s.s. bann við sölu lífdýra.  

Sjúkdómnum veldur herpesveira sem eingöngu getur sýkt nautgripi. Sjúkdómurinn hefur aldrei greinst áður hér á landi. Enskt heiti sjúkdómsins er Infectious Bovine Rhinotracheitis / Infectious Pustular Vulvovaginitis (IBR/IPV). Á þessari stundu er ekkert vitað um hvernig smitið hefur borist á búið.

Starfsmenn Matvælastofnunar fóru og tóku sýni úr öllum mjólkukúm á búinu. Engin sjúkdómseinkenni sáust á kúnum.  Sýnin voru send til rannsóknar í Danmörku og reyndist  stór hluti sýnanna vera jákvæður. Sýni voru jafnframt  tekin á öðrum búum sem Egilsstaðabúið hefur nýlega haft viðskipti við með lifandi dýr en þau reyndust öll neikvæð. Því bendir ekkert til annars en að sýkingin sé einangruð við Egilsstaðabúið.

Eðli þessarar sýkingar er þannig að hún getur verið til staðar án þess að einkenni komi fram en oftar er um að ræða alvarleg öndunarfæraeinkenni og ófrjósemi. Smit berst með líkamsvessum s.s. munnvatni og sæði. Veiran er viðkvæm og er því ekki lengi virk utan líkamans.

Næstu skref eru að taka sýni til veiruræktunar í því skyni að greina nákvæmar gerð veirunnar. Jafnframt verður gerð könnun á mögulegri útbreiðslu veirunnar. Þetta er nauðsynlegur grunnur að ákvarðanatöku um frekari aðgerðir, en á meðan verður bann við lífdýrasölu áfram í gildi.


Getum við bætt efni síðunnar?