Sláturbóla - Hvað er það?
Í haust hafa óvenju margir sláturhússtarfsmenn þurft að leita sér lækninga vegna sláturbólu. Sláturbóla er í raun smit frá sauðfé og því svokölluð súna (Zoonosis). Orsakavaldurinn er Orfveiran sem er ein af Parapoxveirunum, meðgöngutíminn er 3-7 dagar.
Sláturbóla er ekki það sama og slátureitrun, en margir þekkja slátureitrunina, ígerð í sárum sem fólk hefur fengið við sláturgerð. Orsökin er yfirleitt gerlagróðurinn sem er eðlilegur hluti af vambarflórunni, en getur orðið sársaukafullur skaðvaldur í mannfingrum.
Fólk sem handfjatlar sauðfé, td. á sauðburði, rúningsmenn og starfsmenn í sláturhúsi getur smitast af fénu, veiran sest í smásár. Engin hætta er hins vegar á að smitast af kjöti eða öðrum sauðfjárafurðum.
Sjúkdómurinn lýsir sér yfirleitt í upphafi sem lítill rauður eða blár harður nabbi. Hann verður síðan að vökvafylltri blöðru, oft með skorpu. Vægur hiti fylgir stundum, sömuleiðis bólgnir eitlar. Yfirleitt læknast fólk sjálft á 3-6 vikum, en ef bólga er mikil eða bakteríusýking kemst í blöðruna er ástæða til að leita læknis.
Besta vörnin er að nota hanska, mikilvægt er að hylja sár.
Í sauðfé kallast sjúkdómurinn Orf eða kindabóla (hornabóla, sláturbóla), á ensku scabby mouth eða soremouth, sömuleiðis Contagious Ecthyma. Orðið orf mun vera komið úr fornsaxnesku, er jafnvel af sama stofni og hrufa eða hrýfi.
Orf eða kindabóla mun vera útbreiddur sjúkdómur í sauðfé hér á landi. Bændur taka oft eftir því á haustin að lömb sem komin eru inn á gjöf fá einskonar frunsur eða hrúður (hrýfi) kring um munninn, það er staðfesting þess að smit sé í hjörðinni. Yfirleitt berst smitið beint milli dýra, en veiran getur einnig lifað mörg ár í þurru hrúðri. Veiran finnur sér leið gegn um smásár á hárlitlum svæðum, t.d. í kringum munn og í klaufhvarfi. Orfsýking sést líka oft á júgrum á ám, sérstaklega ef lömbin ganga það nærri þeim að þær særist við spena. Eymsli geta leitt til þess að ærnar hleypa lömbunum ekki undir sig, þær geldast og oft fá þær júgurbólgu.
Orfsýking í lömbum á haustbeit getur valdið miklu tjóni. Orfhrúður kring um munn getur dregið verulega úr átgetu, en mesti skaðinn verður ef orfhrúður í klaufhvarfi særist, yfirleitt þegar lömbin ganga á sendnu eða grófu landi. Í sárin geta komið bakteríusýkingar með tilheyrandi eitlastækkunum, stundum grefur jafnvel í eitlunum. Þetta dregur að sjálfsögðu úr þroska lambanna.
Eftirlitsdýralæknar í sláturhúsum fylgjast grannt með eitlastækkunum af þessum toga og oft þarf að skera úr eða jafnvel henda skrokkum.
Dýr
sem gengið hafa gegn um sýkingu eru flest ónæm í 2-3 ár. Tjón af völdum
orf er yfirleitt mest fyrstu árin, en reynslan hérlendis er víðast sú
að ákveðið jafnvægi verði í hjörðinni þegar frá líður. Erlendis hefur
bólusetning verið reynd, en bóluefnið er lifandi og því mjög hættulegt í
meðförum.
Helsta
ráðið er að fylgjast vel með hjörðinni og grípa strax inn ef Orfhrúðrin
sýkjast af bakteríum. Við veirusýkingunni sjálfri er fátt að gera,
helst er að pensla sár á júgrum með joðlausn. Mýkjandi og græðandi
smyrsl lina óþægindi dýrsins.