Fara í efni

Skýrsla um sölu sýklalyfja í Evrópu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Sala sýklalyfja fyrir dýr dróst saman um 2,4% í Evrópu frá 2011 til 2014, á sama tímabili jókst sala á mikilvægustu breiðvirku sýklalyfjunum úr 0,2% í 7,5% af heildar sölu sýklalyfja (sýklalyfja ætluð mönnum og dýrum). Hvatning yfirvalda í Evrópu til að nota sýklalyf á ábyrgan hátt og aukin vitundarvakning um fjölónæmar bakteríur virðist skila sér í samdrætti á sölu sýklalyfja. Hömlur á notkun sýklalyfja og bætt sjúkdómastaða virðist einnig skila sér í minni notkun sýklalyfja í dýrum.

Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu um sölu sýklalyfja í Evrópu árið 2014 sem gefin er út af Evrópsku Lyfjastofnuninni (European Medicines Agency). Í skýrslunni er ítarleg samantekt yfir sölu sýklalyfja í 29 Evrópulöndum.  Það er fagnaðarefni að heildarsala sýklalyfja skuli dragast saman en um leið vekur það áhyggjur að aukning sé á sölu á mikilvægum breiðvirkum sýklalyfjum. Tiltekin breiðvirk sýklalyf eru síðasta úrræðið við meðhöndlun erfiðra sýkinga í mönnum, þegar önnur sýklalyf virka ekki, og ætti þess vegna ætíð að nota þau sem síðasta val í dýrum.

Magn seldra sýklalyfja er mismikið milli landa í Evrópu og getur það skýrst af ólíkri sjúkdómastöðu landanna. Magntölur eru leiðréttar m.t.t. fjölda dýra í hverju landi fyrir sig, þannig að samanburður sé mögulegur. Á mynd hér að neðan er yfirlit yfir sölu sýklalyfja, staða Íslands samanborið við önnur Evrópulönd er góð. Líkt og undanfarin ár var sala sýklalyfja ætluð dýrum á Íslandi árið 2014 mjög lítil og er aðeins Noregur með minni notkun ef tekið er mið af mg/PCU (leiðréttingarstuðull m.t.t. fjölda dýra).  Í skýrslunni kemur einnig fram að samanborið við önnur lönd kemur Ísland mjög vel út þegar val á sýklalyfjum er skoðað. Meiri hluti seldra sýklalyfja hér á landi eru penicillin sýklalyf og er sala breiðvirkra lyfja minni en í flestum öðrum löndum Evrópu.


Sales of veterinary antimicrobial agents in 29 European countries in 2014 - European Medicines Agency bls.35


Í skýrslunni er sérstakur kafli um sýklalyfið colistin, en það er lyf sem Evrópska Lyfjastofnunin ráðleggur að eingöngu sé notað sem síðasta val við meðhöndlun dýra og manna. Fyrsta tilfelli ónæmis gegn colistin var greint í Kína á árinu 2015.  Á árunum 2011-2014 dróst heildarsala á colistin saman um 9 % í Evrópu, þ.e. colistin sem ætlað er bæði mönnum og dýrum. Ekki er vitað til þess að þetta lyf sé notað hér á landi í dýrum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?