Skylt að merkja upprunaland grænmetis
Frétt -
15.08.2009
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Þann 1. september tekur gildi ný reglugerð um að merkja skuli ferskt grænmeti og aðrar ferskar matjurtir með upprunalandi. Þetta á við um matjurtir sem taldar eru upp í reglugerðinni, heilar og niðurskornar og einnig blöndur matjurtategunda. Þegar matjurtir eru seldar í lausasölu eða seljandi pakkar þeim á sölustað eiga upplýsingar um upprunaland að vera aðgengilegar með sýnilegum hætti þar sem matjurtirnar eru á boðstólum.
|
|
Þær almennu reglur sem gilda um upprunamerkingar matvæla hér á landi eru samræmdar reglur á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), sem byggja á Evrópusambands-reglum. Samkvæmt þeim skal merkja upplýsingar um uppruna eða framleiðsluland ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytandanum hvað varðar réttan uppruna matvælanna. Merking matvæla má því ekki vera villandi hvað varðar uppruna. Erfitt hefur reynst að leggja mat á hvort merkingar séu villandi og sitt sýnist hverjum, en með breytingunni sem nú er gerð eru tekin af öll tvímæli um að merkja skuli upprunaland grænmetis og annarra matjurta sem upp eru taldar í nýju reglugerðinni. |
Kannanir hafa sýnt að margir neytendur vilja vita meira um uppruna matvæla. Íslenskir framleiðendur vilja einnig koma því á framfæri hvaða matvara er íslensk. Nú reynir á dreifingaraðila að merkja umbúðir matjurta með upprunalandi og að hafa merkingar réttar, skýrar og aðgengilegar við sölu á óinnpökkuðum matjurtum.
Reglugerðin er gefin út af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, en hún er breyting á reglugerð nr. 503/2005 um merkingu matvæla. Matjurtir sem skylt er að merkja með upplýsingum um upprunaland samkvæmt reglugerðinni:
- Kartöflur
- Tómatar
- Laukur, skalottlaukur, hvítlaukur, blaðlaukur (púrra), vorlaukur, graslaukur og aðrar skyldar matjurtir
- Blómkál, grænkál, hnúðkál, hvítkál, kínakál, rauðkál, rósakál, spergilkál (broccoli), kínaspergil-kál (brassica oleracea var alboglabra), salatkál (pak choi, brassica rapa var chinensis), mibuna og mizuna (brassica rapa var nipposinica), sinnepskál (mustarður), fóðurmergskál og aðrar skyldar matjurtir
- Salat, höfuðsalat, batavíasalat, íssalat (icebergsalat), lausblaða íssalat (frillice), blaðsalat (rapid, lollo rosso, eikarblaðsalat), klettasalat, vorsalat (lambasalat), hrokkinblaðssalat, endívusalat, síkoría (cichorium spp.)
- Gulrófur, gulrætur, hreðkur, næpur, rauðrófur, sellerírót, hafursrót, radísur og aðrar rætur ætlaðar til matar
- Gúrkur, reitagúrkur
- Belgávextir, með eða án hýðis
- Spergill
- Eggaldinjurtir
- Selja, (stilksellerí) önnur en seljurót
- Sveppir og tröfflur
- Aldin Capsicumættarinnar eða
Pimentaættarinnar: Paprikur (grænar og litaðar) og eldpipar, og aðrar
tegundir af ættkvíslunum ætlaðar til matar
- Spínat, Nýja-Sjálandsspínat, hrímblaðka (garðaspínat), blaðbeðja, garðsúra, skrautsúra, silfur-blaðka, spínatblaðka, rauðbeða
- Steinselja, dill, garðablóðberg, basilika, órigan, íssópur, majoram, rósmarín, kóríander, fennill, mynta, salvía
- Sykurmaís
- Kúrbítur (courgettes)
- Ólífur
- Jarðartískokka (ætiþistill)
- Jarðarber
-
Rabarbari
Ítarefni