Fara í efni

Skólanesti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú eru skólarnir byrjaðir aftur eftir sumarfrí. Hér koma nokkrar ábendingar fyrir foreldra og börn um skólanesti. Boðið er upp á heitan mat í hádegi í mörgum skólum í dag en ekki eru allir sem kjósa þann kost og eins eru skólar þar sem ekki er boðið upp á slíkt fyrirkomulag.


Við gerð nestis er að mörgu að huga og má þar nefna: 


  • Hollusta/næringargildi nestisins
  • Rétt meðhöndlum á matnum
  • Val á umbúðum

Hollt og gott mataræði skiptir miklu máli

Börn þurfa hollan og fjölbreyttan mat til að fá orku, vítamín og steinefni sem líkaminn þarfnast fyrir vöxt og góða heilsu. Með fjölbreyttu mataræði er átt við að æskilegt sé að borða eða drekka daglega: 


  • Trefjaríkar kornvörur, svo sem gróft brauð, haframjöl/hafrahringir, kartöflur, pasta eða hrísgrjón
  • Ávexti og grænmeti, bæði með máltíðum og á milli þeirra
  • Kjöt, fisk, egg eða baunir/linsur
  • Mjólkurvörur, veljið frekar fitulitlar vörur
  • Vatn við þorsta
  • Lýsi


Börn þurfa að borða mjög reglulega yfir daginn og ætti ekki að líða meira en 3-3,5 tími milli máltíða. Mælt er með þremur aðalmáltíðum og 2-3 millibitum.
 
Einnig er mjög mikilvægt að börn fái reglulega vatn að drekka yfir daginn og hafi vatnsbrúsa með sér í skólann. Sykraða drykki ætti ekki að nota nema örsjaldan og þá við sérstök tilefni. 

Góður nestispakki fyrir skólann ætti að innihalda gróft brauð, kjöt-, ost- eða fiskálegg ásamt grænmeti og ávöxtum. Eins er gott að brjóta þetta upp af og til að setja í staðinn heimagerðar pizzusneiðar eða pasta t.d með litlum kjötbollum eða eggjahræru. Eins væri hægt að taka harðfisk með í nestispakkann til að auka fjölbreytni. Grjónagrautur með rúsínum gæti líka verið góð tilbreyting. Hægt er að búa til ýmis salöt með sýrðum rjóma eins og túnfisksalat til að nota sem álegg á brauð og svo væri hægt að sleppa brauðinu af og til og nota í staðin mjúkar tortillur, pítubrauð, kartöflubrauð eða flatbrauð. Gott er samt að hafa ávallt ýmsar gerðir af brauði í frystinum svo barnið fái brauðið sem nýjast (hægt að taka frosnar brauðsneiðar út á morgnanna við gerð nestis) og eykur það líka á möguleikum til fjölbreytni. 

Á milli máltíða eru ávextir, grænmeti (t.d gulrætur, paprikusneiðar og kokteiltómatar) og ber (t.d. jarðaber, bláber, vínber) besti kosturinn en einnig væri hægt að hafa þurrkaða ávexti s.s. rúsínur og döðlur með. 


Fleiri upplýsingar um nesti er að finna á heimasíðu Lýðheilsustöðvar og á síðu bresku matvælastofnunarinnar.

 
Hreinlæti skiptir máli við gerð nestis 

Mikilvægt er að þvo sér vel um hendurnar og að öll áhöld séu hrein áður en byrjað er að útbúa nesti og það sama gildir almennt þegar meðhöndlun á matvælum á sér stað. Eins er góð regla að þvo sér alltaf eftir að hafa snert hrá matvæli eins og kjöt, egg o.s.frv. 

Fleiri atrið koma til og því vert að undirstrika mikilvægi þess að þvo sér vel um hendur eftir klósettferðir, eftir hósta/hnerra, eftir að hafa snert sár eða eftir snertingu við dýr. Gildir þetta bæði fyrir þá sem búa til matinn og þá sem leggja hann sér til munns. 

Hér kemur lýsing á góðum handþvotti: 


  • Skola hendur í heitu vatni
  • Nudda hendur og fingur með sápu í ca 15 sekúndur
  • Skola vel alla sápu af
  • Þurrka hendur vel í hreinu handklæði


Bakteríur fjölga sér hratt við stofuhita og því mikilvægt að hafa möguleika á að geyma nesti í ísskáp fram að neyslu þess. 

Val á umbúðum 

Mikilvægt er að nota umbúðir á réttan hátt. Röng notkun getur leitt til þess að óæskileg efni úr umbúðum berist í matvæli sem geta hugsanlega valdið heilsutjóni. Nestisboxið á til að mynda að vera auðkennt með glas- og gaffal merki.

Hvaða umbúðir henta? 


  • Álpappír hentar vel fyrir ost, kjöt, smjör o.þ.h. matvæli en ekki fyrir súr matvæli eins og appelsínur, sítrónur og ávaxtagrauta
  • Matarfilmur henta vel fyrir ávexti, grænmeti og brauð


Hægt er að skoða bækling um umbúðir matvæla hér og um merkingar matvæla hér



Getum við bætt efni síðunnar?