Fara í efni

Sekt fyrir dreifingu fisks eftir leyfissviptingu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Stjórnandi og eigandi fiskvinnslu á Norðurlandi var nýlega dæmdur til refsingar í héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir að hafa framleitt matvæli (fiskafurðir) í fiskvinnsluhúsi sínu þrátt fyrir að fiskvinnsla hans hafi á þeim tíma verið svipt starfsleyfi til framleiðslu matvæla.  Það var Matvælastofnun sem kærði fiskvinnsluna til lögregluyfirvalda.

Eftirlitsmenn Matvælastofnunar mátu ástand fiskvinnslunnar svo í október 2014 að almennt væri ástandið óviðunandi með tilliti til matvælaöryggis.  „Þrifum og umgengni er stórlega ábótavant“ sagði í eftirlitsskýrslu og var stöðin svipt starfsleyfi í nóvember 2014.

Í mars 2015 komust eftirlitsmenn Matvælastofnunar að því að ákærði hafði þrátt fyrir leyfissviptinguna haldið áfram starfseminni.  Var þá fiskvinnslunni lokað á ný og hald lagt á eina vörusendingu sem þar var að finna. Við nánari athugun kom í ljós að ákærði hafði í fimm skipti á tímabilinu desember 2014 til febrúar 2015 selt tilteknu fyrirtæki framleiðslu sína, samtals 19,4 tonn af fiskafurðum að verðmæti u.þ.b. 96.000 evrur og hafði meirihluti þess farið til Belgíu.  Vegna þessa var kaupendum gert viðvart og þær endursendar til Íslands þar sem hald var lagt á þær.

Ekki þótti sannað að umrædd matvæli hefðu ekki verið örugg.  Ákærði hafði hins vegar brotið skýr ákvæði matvælalaga nr. 93/1995 um nauðsyn starfsleyfis.  Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess að um nokkurt magn fiskafurða var að ræða og að ákærði framdi brot sín af ásetningi.  Honum var þó virt til refsilækkunar að hann játaði brot sín skýlaust og enn fremur það að hann kom fiskvinnslu sinni að lokum í viðunandi horf og fékk í framhaldi af því gefið út viðeigandi starfsleyfi.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?