Fara í efni

Reglugerð um flutning líflamba milli landsvæða

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Gefin hefur verið út reglugerð um flutning líflamba milli landsvæða. Hún fjallar um alla flutninga á líflömbum og kiðum yfir varnarlínur, vegna endurnýjunar bústofns vegna niðurskurðar af völdum sjúkdóma, búháttabreytinga og/eða kynbóta á fjárstofni bús. Reglugerðina má nálgast hér á síðunni undir Lög og Reglur/Búfárrækt

Þeir sem hyggjast selja líflömb skulu sækja um það til Matvælastofnunar fyrir 1. júlí á sérstökum eyðublöðum, sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Matvælastofnun veitir leyfi fyrir 1. ágúst eða hafnar umsókninni ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði reglugerðarinnar.


Listi yfir þá sem fengið hafa leyfi til sölu á líflömbum verður birtur á heimasíðu MAST 1. ágúst.


Þeir sem hyggjast kaupa líflömb skulu sækja um það til Matvælastofnunar fyrir 15. ágúst á sérstökum eyðublöðum, sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Matvælastofnun veitir leyfi fyrir 30. ágúst eða hafnar umsókninni ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði reglugerðarinnar.


Tímasetningar fyrir umsóknir um kaup og sölu í ár eru tilgreindar í ákvæðum til bráðabirgða í reglugerðinni en tímasetningar fyrir næstu ár eru tilgreindar í 5. og 6. grein hennar.

Það er von Matvælastofnunar að þessar reglur verði til að einfalda ferli leyfisveitinga vegna kaupa og sölu á líflömbum. Þar sem reglugerðin kemur þetta seint út, er hætt við að bæði sauðfjárbændur og Matvælastofnun verði í kapphlaupi við tímann í sumar, en með góðri samvinnu ætti þetta að hafast.


Þeir sem hyggjast sækja um eru hvattir til að kynna sér reglugerðina vel fyrirfram.

Nánari upplýsingar veita: Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir; Auður Lilja Arnþórsdóttir, sóttvarnadýralæknir; Dagbjört Rúnarsdóttir, ritari; Viktor Pálsson, lögfræðingur; í síma 530 4800.




Getum við bætt efni síðunnar?