Fara í efni

Rannsóknir á orsökum smitandi hósta í hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vorið 2010 kom upp hér á landi nýr sjúkdómur í hrossum, svokallaður smitandi hósti. Rannsóknir leiddu í ljós að orsökin var sýking af völdum bakteríunnar Streptococcus zooepidemicus. Nýlega komu hingað til lands sérfræðingar frá Animal Health Trust rannsóknarstofunni í Newmarket í Englandi til skrafs og ráðgerða vegna rannsókna í tengslum við þennan faraldur.  AHT rannsóknarstofan er ein öflugasta rannsóknastofa í heimi á sviði hestasjúkdóma og þeir Dr. Andrew Waller sameindalíffræðingur og Dr. Richard Newton dýralæknir og faraldsfræðingur hafa um árabil staðið framarlega í rannsóknum á öndunarfærasýkingum í hrossum. Allt frá því að faraldurinn kom upp hafa þeir  lagt  sérfræðingum á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði og dýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun lið við rannsóknir á orsök faraldursins. Einnig hafa komið til liðs við rannsóknarhópinn sérfræðingar við Wellcome Trust Sanger rannsóknarstofuna í Englandi sem eru í fremstu röð í heiminum á sviði rannsókna í sameindaerfðafræði. 


Sameindafræðilegar rannsóknir á erfðaefni á þriðja hundruð S. zooepidemicus bakteríustofna  sem ræktuðust úr hrosssum með smitandi hósta og samanburður við eldri stofna hafa leitt í ljós að hingað hefur borist nýr stofn af þessari bakteríu, kallaður ST 209. Hann hefur greinst í svipuðum sjúkdómstilfellum erlendis. Þar sem íslenski hrossastofninn hafði ekki komist í snertingu við hann áður sköpuðust forsendur fyrir víðtækum faraldri. Öndunarfærasýkingar af völdum S. zooepidemicus eru algengar í unghrossum erlendis og valda miklu tjóni. Oft eru þær taldar koma í kjölfar annarra sýkinga og því erfitt um vik að kanna sérstaklega þátt þeirra. Faraldurinn hér á landi, þar sem öndunafærasýkingar af völdum veira eru fátíðar, gefur einstakt tækifæri til þess að rannsaka þátt þessarar bakteríu nánar. Dr. Andrew Waller hélt  opinn fyrirlestur á Keldum um rannsóknirnar og sýndi hvernig faraldur smitandi hósta í íslenska hrossastofninum hrekur þá lífsseigu kenningu að S. zooepidemicus nái sér eingöngu á strik í kjölfar annarra sýkinga.

Rannsóknahópurinn í heimsókn á Grænhóli.
Frá vinstri: Dr. Richard Newton, Dr. Vilhjálmur Svansson, Dr. Sigríður Björnsdóttir, Dr. Ólöf Sigurðardóttir, Dr. Eggert Gunnarsson og Dr. Andrew Waller.  

Á fundi sérfræðinganna var farið ítarlega yfir ýmsa þætti varðandi faraldurinn, svo sem faraldsfræði sjúkdómsins og leitina að öðrum hugsanlegum smitefnum. Enn fremur var lagt á ráðin um áframhaldandi rannsóknir, m.a. varðandi þróun sérstakra greiningaprófa og bóluefna. Þá var farið yfir hættuna á að aðrir stofnar þessarar bakteríu bærust til landsins sem og náskyld baktería, Streptococcus equi, sem veldur hinni illræmdu kverkeitlabólgu. Það gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenska hrossastofninn. Ekki er vitað hvernig smitefnið, S. zooepidemicus, ST 209, sem olli smitandi hósta barst til landsins. Spjótin beinast helst að innflutningi notaðra reiðtygja og reiðfatnaðar. Þetta er vert að hafa í huga nú þegar landsmót hestamanna er framundan.

Stefnt er að birtingu niðurstaðna í ritrýndu vísindariti enda um mikilvæga þekkingu að ræða fyrir yfirvöld dýraheilbrigðismála og vísindamenn um allan heim. Enn fremur er ráðgert  að kynna niðurstöðurnar alþjóðlegri ráðstefnu um smitsjúkdóma í hrossum í Kentucky í Bandaríkjunum næsta haust (The 9th International Conference on Equine Infectious Diseases, Lexington, Kentucky).

Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið beitti sér fyrir sérstakri fjárveitingu ríkisstjórnar Íslands til rannsókna á orsökum smitandi hósta í hrossum. Auk þess hefur verkefnið verið fjármagnað af Keldum, Matvælastofnun, Animal Health Trust og Wellcome Trust Sanger.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?