Fara í efni

Opinbert eftirlit með framleiðslu matjurta flyst frá Matvælastofnun til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

1.júní sl. tók gildi breyting á lögum um matvæli nr. 93/1995.  Með breytingunni flyst eftirlit með framleiðslu matjurta frá Matvælastofnun til heilbrigðisnefnda (heilbrigðiseftirlits) sveitarfélaga en framleiðsla matjurta telst til frumframleiðslu.  Breytingin er gerð að ósk opinberra eftirlitsaðila.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, hefur Matvælastofnun fram að þessu farið með eftirlit með allri frumframleiðslu á Íslandi, jafnt framleiðslu matjurta sem annarri frumframleiðslu.  Á því verður nú breyting hvað matjurtir snertir.

Frumframleiðsla er skilgreind í 4. gr. matvælalaga sem framleiðsla, eldi eða ræktun undirstöðuafurða ásamt uppskeru, mjöltum og eldi dýra fram að slátrun. Frumframleiðsla tekur einnig til dýra- og fiskveiða og nýtingar villigróðurs. Þegar uppskeru er lokið og komið er að pökkun og dreifingu hefur eftirlit með því hins vegar verið hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna, enda telst pökkun og dreifing ekki vera frumframleiðsla.


Lagabreytingin mun einfalda aðstæður fyrir framleiðendur matjurta sem munu eingöngu vera undir eftirliti eins aðila, þ.e. hlutaðeigandi heilbrigðiseftirlits.  Þetta er jafnframt hagkvæmara fyrir íslenska ríkið og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið.

Matvælastofnun mun eftir breytinguna hafa áfram eftirlit með allri frumframleiðslu á Íslandi nema framleiðslu matjurta.  Eftir sem áður þurfa matvælafyrirtæki sem annast framleiðslu matjurta ekki sérstakt starfsleyfi en þurfa að tilkynna hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd um framleiðslu sína í stað tilkynningar til Matvælastofnunar eins og áður var.

Þess skal getið að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) var hér í eftirlitsferð 3.–7. mars 2014 þar sem úttekt var gerð á eftirliti með frumframleiðslu matjurta. Í lokaskýrslu stofnunarinnar, dags. 2. júní 2014, er að finna athugasemdir við eftirlit með frumframleiðslu og óljósa verkaskiptingu og samræmingu milli eftirlitsaðilanna, þ.e. Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlitssvæðanna, þar sem heilbrigðiseftirlitssvæðin sinntu í sumum tilvikum því eftirliti. Breyting af því tagi, sem nú er orðin að lögum bætir úr þessu.

Breytingalögin eru nr. 40/2016.



Getum við bætt efni síðunnar?