Fara í efni

Ólöglegur innflutningur á notuðum reiðtygjum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Við innflutningseftirlit á Seyðisfirði þann 13. nóvember s.l. var stöðvaður innflutningur á notuðum reiðtygjum. Um var að ræða hnakk, ólíkar gerðir múla, gjarðir, hlífar, píska, hestaábreiðu, reiðhanska o.fl.

Það vekur athygli að samferðamaður skráðs innflytjanda setti sig í samband við Tollgæsluna tveimur vikum fyrir komuna til landsins í upplýsingaleit. Tollgæslan benti viðkomandi á að strangar reglur giltu um innflutning á reiðtygjum og bað hann um að hafa samband við Matvælastofnun sem hann gerði. Matvælastofnun upplýsti viðkomandi um að innflutningur notaðra reiðtygja væri með öllu bannaður. Sömu upplýsingum var komið á framfæri með skriflegum hætti, til skráðs innflytjanda og samferðamanns u.þ.b. viku fyrir innflutninginn með milligöngu utanríkisráðuneytisins. 

Mikil hætta er á að notuð reiðtygi og ósótthreinsaður reiðfatnaður beri með sér smitefni sem valdið getur alvarlegum dýrasjúkdómum hér á landi. Er þar skemmst að minnast faraldurs smitandi hósta sem lamaði alla hestatengda starfsemi árið 2010. Ábyrg afstaða til sjúkdómavarna á að sjálfsögðu að vera efst í huga allra hestamanna og er öflugasta vörnin gegn því að sjúkdómar berist til landsins.

Matvælastofnun mun kæra málið, sem kom upp s.l. viku, til lögreglu en fyrirhugað er að láta farga reiðtygjunum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?