Fara í efni

Ólögleg fæðubótarefni sem innihalda lyf við ristruflunum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hafa nýverið borist upplýsingar frá bandarísku matvæla- og lyfjastofnuninni (Food and Drug Administartion, FDA) í gegnum viðvörunarkerfi Lyfjastofnunar um niðurstöður efnagreininga á vörunum Firminite, Extra Strength Instant Hot Rod og Libidron. Allar vörurnar eru markaðssettar sem kynörvandi fæðubótarefni og/eða sem fæðubótarefni sem lausn/hjálp við ristruflunum. Vörurnar þrjár reyndust allar innihalda lyfjaefnið tadalafil án þess að þess sé getið á umbúðum varanna.  


Tadalafil er virkt lyfjaefni í lyfseðilsskyldum lyfjum hér á landi sem ætluð eru við ristruflunum. Lyfjaefni sem þessi ætti aldrei að nota nema í samráði við lækni, í formi lyfja sem hafa markaðsleyfi, þar sem þau geta verið lífshættuleg séu þau ekki notuð á réttan hátt. Vara/fæðubótarefni sem inniheldur þessi lyfjaefni telst hættulegt matvæli, sérstaklega þegar efnanna er ekki getið á umbúðum varanna.


Vörunum hefur verið dreift um allan heim í gegnum netsölu m.a. á vefsíðunum www.firminite.com , www.instanthotrodextrastrength.com , www.libidron.com og www.amazon.com.

Matvælastofnun hvetur fólk til að kaupa ekki vörurnar eða neyta þeirra þar sem þær geta verið hættulegar heilsu fólks.


Skv. 11. gr. matvælalaga er innflutningur og dreifing matvæla þ.m.t. fæðubótarefna sem innihalda lyf eða lyfjavirk efni, óheimil.  Auk þess er skv. 8.gr. matvælalaga óheimilt að markaðssetja matvæli sem eru ekki örugg til neyslu þ.e. heilsuspillandi.  Umræddar vörur eru því ólöglegar til innflutnings og markaðssetningar.


Fæðubótarefni eru matvæli sem almennt eru í frjálsu flæði til landsins og því fyrst og fremst undir markaðseftirliti.  Eftirlit með fæðubótarefnum á markað er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.  Innflutningseftirlit er í höndum MAST og síðustu ár hefur innflutningseftirlit með fæðubótarefni verið talsvert aukið. 


Samkvæmt reglugerð um fæðubótarefni er innlendum framleiðanda/innflytjanda skylt að tilkynna innflutning/markaðssetningu nýrra fæðubótarefni til MAST.  Viðkomandi vörur hafa ekki verið tilkynntar til MAST og hefur stofnunin því ekki upplýsingar að vörurnar séu á almennum markaði hér á landi.  MAST hefur gert heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga viðvart um umræddar vörur og beinir því til neytenda að hafa samband við viðkomandi heilbrigðiseftirlit hafi þeir upplýsingar um vörurnar á innlendum markaði.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?