Fara í efni

Óheimil heilsufullyrðing

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur gefið Lýsi hf. fyrirmæli vegna notkunar heilsufullyrðinga við markaðssetningu fæðubótarefnisins „Fríar fitusýrur og þorskalýsi“. Tilefni fyrirmælanna er að við markaðssetningu fyrirtækisins var gefið til kynna að neysla vörunnar gæti verið gagnleg við að eyðileggja hjúpaðar veirur, s.s. herpes, RS og kórónaveirur, og fyrirbyggja smit.

Fyrirtækið hefur upplýst Matvælastofnun um að það hafi hætt kynningu á vörunni á vef sínum og upplýst söluaðila um að þeim beri að fjarlægja slíkt kynningarefni.

Einungis má nota heilsufullyrðingar við markaðssetningu matvæla sem eru á lista Evrópusambandsins yfir leyfilegar fullyrðingar.  Þessi listi gildir einnig hérlendis. Upplýsingar sem gefa til kynna að neysla matvöru hafi áhrif á heilsu er heilsufullyrðing í skilningi laganna, hvort sem upplýsingarnar komi fram á matvörunni sjálfri eða eru notaðar við markaðssetningu hennar.

Matvælastofnun varaði nýlega við vörum sem eiga að styrkja ónæmiskerfi líkamans og koma í veg fyrir sýkingar, m.a. af völdum kórónaveira.


Getum við bætt efni síðunnar?