Fara í efni

Nýtt riðutilfelli í Skagafirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Riðuveiki hefur verið staðfest á búi í Skagafirði. Þetta er annað tilfellið á skömmum tíma sem riða greinist í Skagafirði og fimmta tilfelli hefðbundinnar riðu sem greinist á Norðurlandi vestra síðan í febrúar 2015. Þá hafði ekki greinst riða á landinu síðan árið 2010. Matvælastofnun vinnur nú að öflun upplýsinga og undirbúningi aðgerða.

Í síðustu viku fékk gangnamaður í Skagafirði grun um riðuveiki í kind í Bólstaðarhlíðarfjalli og hafði samband við héraðsdýralækni. Að lokinni skoðun var kindinni lógað og sýni sent til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum, sem staðfesti í gær að um hefðbundna riðuveiki væri að ræða. Kindin var frá Stóru Gröf Ytri, bæ sem er skammt frá Brautarholti en þar var skorið niður í vikunni vegna riðu. Bæirnir eru í Skagahólfi og þar hefur riðuveiki komið upp á tólf búum á undanförnum 20 árum og þar af á fimm búum í nágrenni Varmahlíðar. Svæðið er þekkt riðusvæði. Á bænum er nú um 330 fullorðið fé.

Fram til ársins 2010 greindist riða á nokkrum bæjum á landinu á hverju ári en engin tilfelli hefðbundinnar riðu greindust á árunum 2011-2014. Riðan hefur verið á undanhaldi en ný tilfelli á þessu ári sýna að baráttunni er langt frá því að vera lokið. Á undanförnum árum hafa sýni verið tekin við slátrun úr u.þ.b. þrjúþúsund kindum á ári. Jafnframt hafa bændur verið hvattir til að senda hausa til Keldna af fé sem drepst eða er lógað heima vegna vanþrifa, slysa eða sjúkdóma, eða hafa samband við dýralækni um að taka sýni úr slíku fé. Aukin áhersla er á að fá slík sýni þar sem það eykur líkur á að finna riðuna. 

Héraðsdýralæknir vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og úttektar á búinu til að meta umfang aðgerða við förgun fjár, þrif og sótthreinsun. Því næst fer málið í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskurð.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?