Fara í efni

Nýjar reglur um meðferð og kælingu botnfiskafla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur nú gefið út nýjar reglur um meðferð og kælingu botnfiskafla úr veiðiferðum sem vara skemur en 24 klukkustundir. Reglur þessar koma til viðbótar við almenn ákvæði matvælalögjafarinnar um kælingu og meðferð sjávarafla og annarra matvæla. Markmiðið er að tryggja órofna kælikeðju frá veiðum til vinnslu og að fiskur verði varinn fyrir sól og utanaðkomandi mengun. Það er mikilvægt verkefni að tryggja gæði og öryggi sjávarafurða og er útgáfa reglugerðarinnar og hert eftirlit liður í því.

Kannanir hér á landi og niðurstöður úr eftirliti MAST hafa sýnt að kæling og meðferð landaðs botnfiskafla er í sumum tilvikum ekki fullnægjandi. Reglugerðin er sett til að bregðast við þessu og þó svo hún taki ekki gildi fyrr en 1. september 2012, þá hefur MAST þegar ráðið  eftirlitsmenn sem vinna við eftirlit með löndun og meðferð botnfiskafla yfir sumarmánuðina. Markmiðið er að undirbúa gildistöku reglugerðarinnar, afla nánari upplýsinga um stöðu mála og bregðast við á grundvelli núgildandi löggjafar ef ástæða er til.

MAST og Fiskistofa hafa einnig gengið frá samkomulagi um gagnkvæmt samstarf um eftirlit vegna tiltekinna eftirlitsverkefna. Meðal þessara verkefna eru aflameðferð, ásigkomulag löndunaraðstöðu, ásamt hitastigi og ísun landaðs afla. Framfylgd nýrra reglna um meðferð og kælingu botnfiskafla verður því í höndum MAST með aðstoð frá starfsmönnum fiskveiðistjórnunarsviðs Fiskistofu, sem munu tilkynna MAST um aflameðferðarbrot við löndun. Starfsmenn Fiskistofu munu m.a. mæla hitastig í afla og athuga kælingu hans við löndun og verða mælingar gerðar allt árið í öllum landshlutum.  

Nýjar kröfur um meðferð og kælingu botnfiskafla úr veiðiferðum sem vara skemur en 24 klukkustundir má nálgast hér.


Getum við bætt efni síðunnar?