Fara í efni

Ný þvingunarúrræði vegna dýravelferðarmála

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í tillögu að frumvarpi til nýrra laga um velferð dýra er m.a. gert ráð fyrir því að þvingunarúrræði verði gerð fjölbreyttari en nú er. Í tillögunni er gert ráð fyrir að hin nýju lög leysi eldri lög um dýravernd af hólmi auk þess að taka til atriða sem nú er að finna í lögum um búfjárhald og hafa þannig víðari skírskotun en eldri lögin.

Núna er það svo að þegar brotið er gegn dýravernd í landbúnaði er ákvæðum laga um búfjárhald beitt. Þvingunarúrræði laga um búfjárhald eru ekki fjölbreytt en þau felast í því að kæra brot til lögreglu eða taka dýr úr vörslu fólks þegar ekki er orðið við kröfum um úrbætur. Í mörgum tilvikum er kæra til lögreglu ekki rétta úrræðið og vörslusvipting er að sama skapi harkalegt úrræði og ekki beitt nema það sé nauðsynlegt. Vörslusvipting hefur auk þess gefist misjafnlega vel vegna þess að framkvæmd málanna hvílir á mörgum opinberum aðilum og er því þunglamaleg. Það er því skortur á fjölbreyttari úrræðum sem nýtast myndu við að taka á þeim ólíku málum sem upp geta komið.

Með tillögu að frumvarpi til nýrra laga er ætlunin að fjölga úrræðum sem Matvælastofnun (MAST) er heimilt að beita. Meðal nýmæla er heimild til að skerða opinberar greiðslur í landbúnaði, beita dagsektum, stjórnvaldsektum og þá er gert ráð fyrir einfaldari málsmeðferð þegar kemur að því að taka dýr úr vörslu fólks. Verður nú getið um tvær af þessum breytingum.


  
Stærstur hluti greiðslna í landbúnaði er óháður því að viðkomandi fari eftir reglum um velferð dýra. Líklega myndi það úrræði að skerða fjárstuðning við bændur njóta stuðnings neytenda og þorra bænda. Neytendur eiga almennt ekki kost á að sniðganga afurðir þeirra er brjóta lög er varða dýravelferð og þá er óorði komið á starfsgreinar bænda þegar dýravelferðarmál koma upp. Þá fer það illa saman að stjórnvöld styrki búskap hjá bændum á sama tíma og opinberir aðilar eru að beita þvingunarúrræðum  vegna þess að sami búskapur stenst ekki lög um dýravelferð. Enginn vafi er um að þetta úrræði yrði skilvirkt og áhrifaríkt.

Samkvæmt núgildandi löggjöf er það lögreglustjóri sem ákveður að taka dýr úr vörslu bænda að fenginni kröfu frá MAST. Áður en slík krafa er gerð þarf úttekt eftirlitsaðila, fresti til úrbóta og úttekt á úrbótum. Ef vörslusvipting fer fram annast sveitarfélög fóðrun dýranna og annað umstang. Í fyrrgreindri tillögu að frumvarpi er þessi framkvæmd einfölduð og gert ráð fyrir að einn og sami aðili taki ákvörðun um vörslusviptingu og sjái um framkvæmd hennar með aðstoð lögreglu.

Á fleiri nýmæli í tillögu að frumvarpi mætti minnast en þetta verður látið nægja að sinni.


Getum við bætt efni síðunnar?