Fara í efni

Ný lög um dýravelferð

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ný lög um dýravelferð voru samþykkt á Alþingi við þinglok, ásamt nýjum lögum um búfjárhald. Lögin taka gildi um næstu áramót en um síðustu áramót fluttist eftirlit með lögum um dýravernd frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar. Með þessum lagabreytingum færist allt eftirlit með dýravelferð á eina hendi, málsmeðferð verður einfaldari og um leið skilvirkari með bættum þvingunarúrræðum.
Markmið nýrra dýravelferðarlaga er „að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt“. Samkvæmt lögunum verður ill meðferð dýra óheimil. Þá eru fjölmörg nýmæli í lögunum og má þar nefna að grasbítum verður tryggð beit, réttur dýra til að fá lækningu eða líkn er tryggður, kynferðismök við dýr verða bönnuð, bannað verður að nota lifandi dýr sem fóður og dýraat verður bannað, svo eitthvað sé nefnt.

Með lögunum fær Matvælastofnun víðtækari heimildir við beitingu þvingunarúrræða þegar brotið er gegn ákvæðum laganna. Heimilt verður að beita dagsektum, stjórnvaldssektum eða stöðva starfsemi. Þá verður stofnuninni heimilt að framkvæma vörslusviptingu, leggja tímabundið bann við dýrahaldi eða fara fram á að dýraeigandi verði sviptur með dómi heimild til að hafa dýr í umsjá sinni hafi hann gerst sekur um stórfellt eða ítrekað brot á lögunum. 

Um síðustu áramót fluttist eftirlit með lögum um dýravernd og stjórnsýsla vegna þeirra laga frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar. Samhliða samþykkt nýrra laga um dýravelferð voru síðan samþykkt ný lög um búfjárhald, sem einnig taka gildi um næstu áramót. Með þeim færist búfjáreftirlit frá sveitarfélögunum til Matvælastofnunar og verður það tengt eftirliti með dýravelferð. Þar með verður allt eftirlit með aðbúnaði og velferð dýra hjá Matvælastofnun frá og með 1. janúar 2014, með tilheyrandi einföldun á stjórnsýslu, eftirliti og eftirfylgni. Nýja löggjöfin gefur stofnuninni betri tól til að takast á við þá þætti sem hafa áhrif á velferð og líðan dýra og skýrt verður hvað má ekki gera við dýr og hvað má gera við dýr með tilteknum skilyrðum. Einnig setja lögin ramma fyrir ýmsa dýratengda starfsemi eins og dýrahjúkrunarfræði, dýraatferlisfræði, störf frjótækna og örmerkingamanna, svo dæmi séu tekin.   

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?