Fara í efni

Norrænt eftirlitsverkefni um matvælasnertiefni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælayfirvöld á Norðurlöndunum luku nýlega við úttekt á notkun efna og hluta í snertingu við matvæli. Niðurstöður úttektarinnar sýna að bæta þarf þekkingu fyrirtækja á Norðurlöndunum á reglum um framleiðslu, innflutning og notkun snertiefna matvæla og viðhalda þarf virku eftirliti og fræðslu á þessu sviði.

Efni og hlutir sem komast í snertingu við matvæli (matvælasnertiefni) geta verið uppspretta mengunar í matnum okkar þar sem þau eru notuð á öllum stigum matvælaframleiðslu. Matvælayfirvöld á Norðurlöndunum framkvæmdu sameiginlegt eftirlitsverkefni á árunum 2013-2015 þar sem lögð var áhersla á að athuga rekjanleika matvælasnertiefna, þekkingu fyrirtækja á þeirri löggjöf sem um þau gildir og að skoða ákveðna þætti varðandi skjalahald og samræmi við gildandi reglugerðir.  Plastefni og hlutir eru mjög mikið notuð í matvælaframleiðslu og var í verkefninu lögð áhersla á þann flokk matvælasnertiefna.  Norrænn vinnuhópur um matvæli og upplýsingar til neytenda (NMF) sem starfar í umboði Norrænu ráðherranefndarinnar styrkti verkefnið.  Sérfræðingar Matvælastofnunar leiddu verkefnið fyrir Íslands hönd og bæði eftirlitsfólk frá Matvælastofnun og heilbrigðisfulltrúar fra Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga (HES) tóku þátt í framkvæmdinni.

Niðurstöður sýndu að bæta þarf þekkingu fyrirtækja á Norðurlöndunum sem framleiða, flytja inn og nota matvælasnertiefni á þeirri löggjöf sem gildir um vörurnar og að þau þurfa að bæta sig varðandi útgáfu og eftirlit með ákveðnum skjölum sem skylt er að fylgi matvælasnertiefnum úr plasti. Þá sýna niðurstöður að í þeim löndum þar sem yfirvöld hafa lagt sérstaka áherslu á þennan málaflokk síðustu ár, með virku eftirliti og fræðslu, er ástandið betra. Það er því ljóst að yfirvöld landanna þurfa að viðhalda virku eftirliti og fræðslu á þessu sviði. Efla þarf fræðslu og eftirlit með snertiefnum matvæla hér á landi og hefur Matvælastofnun lagt aukna áhersla á fræðslu um snertiefni matvæla og eftirlit hér á landi með námskeiðum fyrir eftirlitsmenn og framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðila.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?