Fara í efni

Norræn æfing í viðbrögðum við gin- og klaufaveiki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Dagana 19.-23. september n.k. verður haldin sameiginleg norræn æfing í viðbrögðum við gin- og klaufaveiki. Markmið æfingarinnar er að prófa samvinnu landanna og viðbragðsáætlanir þeirra þegar upp koma alvarlegir smitsjúkdómar í dýrum.

Gin- og klaufaveiki er veirusýking sem sýkir nautgripi, sauðfé, svín og önnur klaufdýr en hvorki fólk né aðrar dýrategundir. Sjúkdómurinn er mjög smitandi og breiðist því hratt út. Helstu einkenni eru blöðrur í munni og slefa. Dýrin hætta að éta vegna sársauka í munni og hjá kúm minnkar nyt verulega. Sjúkdómurinn veldur miklum þjáningum fyrir dýrin en dregur þau sjaldan til dauða. Bakteríusýkingar geta komið í kjölfar veirusýkingarinnar og valdið enn meiri þjáningum og langvarandi veikindum.


Sjúkdómurinn hefur aldrei komið upp hér á landi og ekki á Norðurlöndunum síðan í Danmörku árið 1983, en það er mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Gin- og klaufaveiki og aðrir alvarlegir smitandi sjúkdómar í búfé geta komið upp fyrirvaralaust og þá er mikilvægt að skjótt sé brugðist við til að hindra útbreiðslu þeirra. Hér á landi hafa búfjáreigendur, dýralæknar og aðrir litla reynslu af að takast á við slíka sjúkdóma og þess vegna er nauðsynlegt að setja reglulega á svið faraldra til að æfa viðbrögð þeirra sem skipuleggja eiga aðgerðir gegn þeim. Skjót og fumlaus viðbrögð geta tvímælalaust dregið úr því tjóni sem sjúkdómarnir valda, en eins og dæmi frá öðrum löndum sanna getur tjónið orðið gífurlegt, nái þeir að breiðast út. Sem dæmi má nefna er áætlað að kostnaður bænda, fyrirtækja í landbúnaði og skattgreiðenda, vegna faraldursins sem geisaði í Bretlandi árið 2001, hafi numið um 4 milljörðum Evra. Gin- og kaufaveiki hefur einnig mikil áhrif á viðskipti með dýr og dýraafurðir á milli landa, vegna kvaða sem sett eru á lönd eða landsvæði þar sem sjúkdómurinn er til staðar.


Norræna ráðherraráðið veitti styrk til undirbúnings æfingarinnar, sem staðið hefur undanfarna tólf mánuði. Framleiðnisjóður landbúnaðarins, Framkvæmdanefnd búvörusamninga og Icepharma styrkja framkvæmd æfingarinnar hér á landi en undirbúningur hefur verið í höndum fjögurra starfsmanna yfirdýralæknisembættisins í samvinnu við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og formann Landssambands sláturleyfishafa.


Æfingin hér á landi fer fram á aðalskrifstofu embættis yfirdýralæknis, rannsóknarstofu, sláturhúsi og sauðfjárbúi.


Almennar upplýsingar um viðbrögð við alvarlegum smitsjúkdómum í dýrum er að finna á heimasíðu yfirdýralæknis, www.yfirdyralaeknir.is, undir liðnum viðbragðsáætlanir.

Nánari upplýsingar veitir Auður Lilja Arnþórsdóttir, dýralæknir, í síma 8993002.

Birt á vef Yfirdýralæknis þann 16. september, 2005.Getum við bætt efni síðunnar?